Hundruð þýskra lögreglumanna hafa verið fluttar að landamærum landsins til að sinna hertu eftirliti eftir ákvörðun stjórnvalda þar í landi í dag. „Við erum að færa til mörg hundruð lögreglumenn,“ segir talsmaður lögreglunnar í samtali við AFP-fréttastofuna.
Þýsk yfirvöld ákváðu í dag að herða landamæraeftirlit, fyrst í stað við landamærin að Austurríki en þaðan hafa m.a. þúsundir flóttamanna frá Sýrlandi streymt um helgina. Talið er að um 13 þúsund flóttamenn hafi komið til München.
Uppfært kl. 19.43: Þýskir lögreglumenn eru þegar byrjaðir að stjórna landamæragæslu við landamærin frá Austurríki. Fólk er stöðvað og spurt um skilríki. Í frétt AFP-segir að þrír Sýrlendingar hafi m.a. verið stöðvaðir og látnir bíða út í vegkanti á meðan þýskir lögreglumenn rannsökuðu skilríki þeirra.
Sjá frétt mbl.is: Landamærunum að Austurríki lokað
Evrópusambandið segir að ákvörðun Þýskalands um að herða tímabundið landamæraeftirlit sitt undirstriki þá nauðsyn að aðildarlönd sambandsins deili ábyrgðinni við að taka við þúsundum flóttafólks.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, upplýsti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, um ákvörðunina sem byggð er á undanþágu frá Schengen-samstarfinu.
„Ákvörðun Þýskalands í dag undirstrikar þá nauðsyn að samþykkja aðgerðir sem framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til með það að markmiði að ná tökum á flóttamannavandanum,“ segir í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórninni.
Juncker sagði í ræðu í síðustu viku að koma þyrfti 160 þúsund flóttamönnum semkomið hafa til Grikklands, Ungverjalands og Ítalíu fyrir með því að setja kvóta á aðildarlöndin.
Innanríkis- og dómsmálaráðherrar ESB-landa munu funda í Brussel á morgun til að skoða aðgerðaráætlunina.
Framkvæmdastjórnin bendir á að samkvæmt Schengen-samkomulaginu, sem tók gildi árið 1995, geti aðildarlönd við sérstakar aðstæður hert landamæraeftirlit sitt. Slíkt ástand sé nú uppi í Þýskalandi en flóttamenn streyma þangað frá öðrum löndum ESB. Samkvæmt Schengen-samkomulaginu eiga hælisleitendur að fá mál sín tekin fyrir í þeim löndum sem þeir koma fyrst til.