16 ára dönsk stúlka myrti móður sína

Brautarstöðin í Kvissel
Brautarstöðin í Kvissel Jørgen A. Larsen/Wikimedia Commons

Landsréttur í Hjørring í Danmörku mun kveða upp refsingu í máli hinnar 16 ára Lisu Borch og tæplega þrjátíu ára vinar hennar, Bakhtiar Mohammed Abdullah, í dag. Í síðustu viku voru þau fundin sek um að hafa myrt móður Borch, Tinu Rømer Holtegaard, sem var fertug þegar hún lést.

Landsrétturinn var skipaður þremur dómurum og tólf meðdómurum og var hann einhuga um sök fólksins. Holtegaard var myrt að kvöldi 8. október á síðasta ári en hún var stungin mörgum sinnum í brjóstið á heimili sínu í Kvissel.

Abdullah og Borch hafa bæði ítrekað neitað sök í málinu og benda bæði á hitt sem sökudólg í málinu. Sögum þeirra ber ekki saman og þá hafa þau margoft breytt framburði sínum.

Dóttirin sagðist hafa verið í baðherbergi hússins þegar hún heyrði læti frá svefnherbergi móður sinnar. Abdullah segist ekki hafa komið á heimilið þetta kvöld fyrr en eftir að konan var látin.

Blóð úr Holtegaard fannst á skyrtu Abdullah og þá hringdi Borch í leigubíl fyrir hann og í nokkra vini sína áður en hún hringdi í Neyðarlínuna. Þá reyndi stúlkan ekki að bjarga móður sinni þrátt fyrir leiðbeiningar starfsmanna Neyðarlínunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert