Herða eftirlit um leið og „ógn“ steðjar að

Ewa Kopacz forsætisráðherra Póllands.
Ewa Kopacz forsætisráðherra Póllands. AFP

Stjórnvöld í Póllandi munu taka upp hert landamæraeftirlit um leið og „einhver ógn“ steðjar að, segir forsætisráðherra landsins. Ráðherrar Evrópulanda munu funda í Brussel í dag um hvernig taka eigi á flóttamannavandanum í álfunni. Á fundinum verður m.a. rædd tillaga framkvæmdastjórnar ESB um hvernig skipta eigi flóttamönnunum niður á aðildarlöndin.

„Um leið og ég heyri af einhverri ógn við pólsku landamærin munum við herða eftirlit,“ segir  Ewa Kopacz, forsætisráðherra Póllands. Austurríki, Þýskaland, Tékkland og Slóvakía hafa þegar hert eftirlit á landamærum sínum. 

Ólíkt Austurríki og Ungverjalandi hafa flóttamenn ekki flykkst til Tékklands, Póllands og Slóvakíu á leið sinni til annarra Evrópulanda. Öll eiga löndin aðild að Schengen-samstarfinu sem felur í sér frjálst flæði fólks milli aðildarlandanna. Í samkomulaginu er heimild um að herða landamæraeftirlit tímabundið séu sérstakar aðstæður uppi. 

Kopacz ítrekaði einnig skoðun sína á hugmyndum framkvæmdastjórnar ESB um að dreifa flóttafólki niður á aðildarlöndin. Um 160 þúsund flóttamenn, aðallega frá Sýrlandi, hafa komið til álfunnar. Flestir koma á land í Grikklandi eða Ítalíu. 

„Pólland mun ekki samþykkja sjálfkrafa flóttamannakvóta. Póllands krefst mjög, mjög strangs eftirlits og stjórnunar við landamæri ESB,“ sagði Kopacz á blaðamannafundi í Varsjá í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka