Hin sextán ára Lisa Borch hefur verið dæmd í 9 ára fangelsi fyrir að hafa myrt móður sína, Tine Holtegard á heimili þeirra í Kvissel í Danmörku í október á síðasta ári þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul. Saksóknari í málinu segir atburðarrásina, dóttir sem vekur móður sína með því að stinga hana í hjartað, vera versta martröð sem hún geti ímyndað sér.
Fyrrverandi kærasti Borch, Bakhtiar Mohammed Abdullah, var dæmdur í 13 ára fangelsi. Honum verður vísað úr landi þegar hann hefur afplánað dóminn. Morðið hefur vakið mikla athygli í Danmörku.
„Það hefur verið algjörlega hræðilegt fyrir Tine Holtegard, sem liggur í rúmi sínu og vaknar við að það er verið að stinga hana. Og þar að auki að uppgötva að það er hennar eigin dóttir sem er að því. Það er versta martröð sem ég get ímyndað mér,“ sagði Karina Skou, saksóknari í málinu, eftir að dómurinn var kveðinn upp í dag.
Svo virðist sem hin unga Borch hafi ratað í slæman félagsskap eftir að hún hóf störf ásamt tvíburasystur sinni á veitingastað í Fredrikshaven. Hún átti erfitt með að virða reglur móður sinnar og rifust þær nær daglega, svo mikið að systir hennar flutti af heimilinu skömmu áður en móðirin var myrt.
Jens Holtegaard, eiginmaður Tine, var létt þegar landsréttur í Hjorring í Danmörku sló því föstu á fimmtudag í síðustu viku að Borch og kærasti hennar bæru ábyrgð á dauða hennar. Hann ræddi við danska fréttamiðilinn Berlinske Tidende eftir að dómurinn var kveðinn upp. Það hlaut að vera að þau hefðu gert þetta, þau voru þau einu sem voru í húsinu á þessum tíma,“ segir Jens.
Frétt mbl.is: 16 ára dönsk stúlka myrti móður sína
Tine fannst látin á heimili sínu að kvöldið 8. október á síðasta ári eftir að dóttir hennar hafði hringt á sjúkrabíl. Tine bjó í Kvissel í Danmörku ásamt annarri dóttur sinni og eiginmanni en hann var í vinnu kvöldið afdrifaríka. Þau gengu í hjónaband árið 2009 en höfðu verið í sambúð frá árinu 2006.
Andlát Tine hefur reynt verulega á Jens. Hann er í leyfi frá starfi sínu sem þroskaþjálfi og þjáist nú af miklum kvíða. Hann segir Tine hafa verið límið sem hélt fjölskyldunni saman. „Nú hef ég beðið í tíu mánuði eftir því að vita með vissu hvað gerðist þetta kvöld,“ segir Jens.
Þegar Jens bar vitni fyrir réttinum fyrr í þessum mánuði sagði hann að stjúpdóttir hans hefði smá saman fjarlægst fjölskylduna árið áður en hún myrti móður sína. Samband mæðgnanna varð verra með hverjum deginum.
Vorið 2014 hætti stúlkan að fara eftir þeim reglum sem giltu á heimilinu. „Við fundum snemma að það var eitthvað að en hún vildi ekki segja neitt, heldur ekki þegar Tine fór með hana til læknis. Sálfræðingurinn vildi ekki gera neitt þar sem hún var ekki nógu veik,“ sagði Jens í samtali við BT.
Spennan á milli mæðgnanna jókst verulega sumarið 2014 þegar Borch kynntist Abdullah og fleiri útlendingum í gegnum starf sitt á veitingastað í Frederikshavn. „Ég hef aldrei hitt manneskju sem er svo full af lygum og jafn undirförul og Borch er. Hún lifði allt öðru lífi en systir sín,“ segir Jens.