Búa að öðrum og fágaðri aðferðum

00:00
00:00

Sí­fellt fleiri radd­ir vara nú við því að meðal flótta­fólks­ins sem streym­ir til Evr­ópu leyn­ist víga­menn sam­taka á borð við Ríki íslam. Sér­fræðing­ar deila ekki þess­um áhyggj­um og segja hryðju­verka­menn geta gripið til mun fágaðri aðferða til að koma vilja sín­um fram.

Meðal þeirra sem hafa varað við því að víga­menn ferðist meðal ör­vænt­inga­fulls flótta­fólks­ins eru ýms­ir stjórn­mála­menn og Frans páfi. Sér­fræðing­ar segja að að ekki sé hægt að úti­loka að ógn­ar­sam­tök fari þessa leið til að koma liðsmönn­um sín­um til Evr­ópu, en segja þau búa að mun þæg­in­legri lausn­um.

„Ég tel að þetta sé mjög gilt áhyggju­efni af ein­um sjón­ar­hóli, en hafa þarf í huga það lyk­il­atriði að [Ríki íslam] hef­ur fjöl­marga rík­is­borg­ara Evr­ópu­sam­bands­ins inn­an sinna raða, með gild vega­bréf, sem gætu mögu­lega ferðast til baka eft­ir hefðbundn­um leiðum,“ seg­ir Matt­hew Henman hjá Jane's Terr­orism and Ins­ur­gency Centre IHS.

Hann bend­ir þó á að auðveld­ara væri að hafa eft­ir­lit með þeim sem ferðaðist með hefðbundn­um hætti en þeim sem ferðaðist meðal flótta­fólks, og sagði um að ræða einn helsta vand­ann sem ör­ygg­is­yf­ir­völd í Evr­ópu stæðu frammi fyr­ir.

Ból­ar ekki á víga­mönn­um í dul­ar­gervi

Gil­les de Kercho­ve, sem fer fyr­ir aðgerðum gegn hryðju­verk­um hjá Evr­ópu­sam­band­inu, kallaði í mars sl. eft­ir auk­inni ár­vekni á landa­mær­um sam­bands­ins og sagði til­tölu­lega auðvelt að kom­ast inn í aðild­ar­ríki ESB í flótta­manna­straumn­um.

Hægri­menn í Evr­ópu hafa gripið viðvör­un­ina á lofti, en yfir 430.000 flótta­menn hafa ferðast frá lönd­um á borð við Sýr­land og Af­gan­ist­an og yfir Miðjarðar­hafið á þessu ári.

„Á þessu stigi höf­um við eng­ar bend­ing­ar um að víga­menn leyn­ist meðal hæl­is­leit­enda,“ sagði hátt sett­ur fransk­ur emb­ætt­ismaður í sam­tali við AFP. Hann sagði rétt að hryðju­verka­menn ferðuðust í aukn­um mæli land­leiðina til að koma í veg fyr­ir að fylgst væri með ferðum þeirra, en á hinn bóg­inn hefðu þeir fjár­hags­lega burði til að ferðast til Evr­ópu með öðrum hætti en flótta­fólk­inu stæði til boða.

Marg­ir þeirra sem hafa framið árás­ir í Evr­ópu í nafni Rík­is íslam eða Al-Kaída hafa átt evr­ópskt vega­bréf, þ. á m. Frakk­inn Mehdi Nemmouche sem stóð fyr­ir árás á safn gyðinga í Brus­sel í maí 2014.

Ýmsir hafa varað við því að meðal flóttafólksins leynist vígamenn, …
Ýmsir hafa varað við því að meðal flótta­fólks­ins leyn­ist víga­menn, en sér­fræðing­ar segja hryðju­verka­sam­tök búa yfir öðrum ráðum til að kom­ast til Evr­ópu en hriplek­um bát­um. AFP

„All­ir helstu hóp­ar íslam­ista í Sýr­landi og Írak beina nú kröft­um sín­um að bar­dög­um í þeim ríkj­um og hafa tak­markað sig, að minnsta kosti op­in­ber­lega, við að hvetja stuðnings­menn sína sem geta ekki ferðast til Sýr­lands og Írak og eru þegar í Evr­ópu, til að fremja árás­ir í sínu nafni í sín­um lönd­um, í stað þess að senda fólk til baka,“ seg­ir Henman hjá IHS.

Menn­irn­ir þrír sem stóðu fyr­ir árás­un­um í Par­ís í janú­ar sl. höfðu all­ir lýst holl­ustu við Ríki íslam. Alain Chou­et, fyrr­ver­andi yf­ir­maður frönsku leyniþjón­ust­unn­ar DGSE, seg­ir þá kenn­ingu að víga­menn leyn­ist meðal flótta­manna ekki halda vatni.

„Það er ekk­ert vit í því, aðgerðarlega séð, fyr­ir hryðju­verka­hóp að taka slíka áhættu,“ seg­ir hann. Chou­et seg­ir að Ríki íslam hefði burði til þess að senda liðsmenn sína til Evr­ópu með flugi og „fínt“ vega­bréf. Þau muni alltaf geta fundið „þrjá hálf­vita“ til að ganga er­inda sinna.

Eft­ir­lits­mar­tröð

Ótt­inn við af­leiðing­ar flótta­manna­flutn­ing­anna er þó lík­leg­ur til þess að auka á byrðar ör­ygg­is­yf­ir­valda, sem eiga þegar fullt í fangi með að fylgj­ast með þekkt­um ógn­um.

„Ef þú horf­ir til hans í hlut­falli við fjölda hæl­is­leit­enda sem hingað koma og til þeirr­ar staðreynd­ar að litl­ar upp­lýs­ing­ar liggja fyr­ir um fólkið, þá gef­ur það þér hug­mynd um um­fang verk­efn­is­ins,“ seg­ir Henman.

Það væri rangt að hunsa mögulega hættu, segir einn sérfræðinganna, …
Það væri rangt að hunsa mögu­lega hættu, seg­ir einn sér­fræðing­anna, en að sama skapi gæti ímynduð ógn gefið flokk­um and­víg­um inn­flytj­end­um byr und­ir báða vængi. AFP

Eric Denece hjá Centre for Rese­arch and In­telli­gence í Frakklandi er einnig meðal þeirra sem var­ar við því að gera of mikið úr ógn­inni af víga­mönn­um í dul­ar­gervi, sem flokk­ar and­víg­ir inn­flytj­end­um gætu byggt á.

„Að ýkja hætt­una er heimsku­legt, en að af­neita henni full­kom­lega væri rangt,“ seg­ir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert