Búa að öðrum og fágaðri aðferðum

Sífellt fleiri raddir vara nú við því að meðal flóttafólksins sem streymir til Evrópu leynist vígamenn samtaka á borð við Ríki íslam. Sérfræðingar deila ekki þessum áhyggjum og segja hryðjuverkamenn geta gripið til mun fágaðri aðferða til að koma vilja sínum fram.

Meðal þeirra sem hafa varað við því að vígamenn ferðist meðal örvæntingafulls flóttafólksins eru ýmsir stjórnmálamenn og Frans páfi. Sérfræðingar segja að að ekki sé hægt að útiloka að ógnarsamtök fari þessa leið til að koma liðsmönnum sínum til Evrópu, en segja þau búa að mun þæginlegri lausnum.

„Ég tel að þetta sé mjög gilt áhyggjuefni af einum sjónarhóli, en hafa þarf í huga það lykilatriði að [Ríki íslam] hefur fjölmarga ríkisborgara Evrópusambandsins innan sinna raða, með gild vegabréf, sem gætu mögulega ferðast til baka eftir hefðbundnum leiðum,“ segir Matthew Henman hjá Jane's Terrorism and Insurgency Centre IHS.

Hann bendir þó á að auðveldara væri að hafa eftirlit með þeim sem ferðaðist með hefðbundnum hætti en þeim sem ferðaðist meðal flóttafólks, og sagði um að ræða einn helsta vandann sem öryggisyfirvöld í Evrópu stæðu frammi fyrir.

Bólar ekki á vígamönnum í dulargervi

Gilles de Kerchove, sem fer fyrir aðgerðum gegn hryðjuverkum hjá Evrópusambandinu, kallaði í mars sl. eftir aukinni árvekni á landamærum sambandsins og sagði tiltölulega auðvelt að komast inn í aðildarríki ESB í flóttamannastraumnum.

Hægrimenn í Evrópu hafa gripið viðvörunina á lofti, en yfir 430.000 flóttamenn hafa ferðast frá löndum á borð við Sýrland og Afganistan og yfir Miðjarðarhafið á þessu ári.

„Á þessu stigi höfum við engar bendingar um að vígamenn leynist meðal hælisleitenda,“ sagði hátt settur franskur embættismaður í samtali við AFP. Hann sagði rétt að hryðjuverkamenn ferðuðust í auknum mæli landleiðina til að koma í veg fyrir að fylgst væri með ferðum þeirra, en á hinn bóginn hefðu þeir fjárhagslega burði til að ferðast til Evrópu með öðrum hætti en flóttafólkinu stæði til boða.

Margir þeirra sem hafa framið árásir í Evrópu í nafni Ríkis íslam eða Al-Kaída hafa átt evrópskt vegabréf, þ. á m. Frakkinn Mehdi Nemmouche sem stóð fyrir árás á safn gyðinga í Brussel í maí 2014.

Ýmsir hafa varað við því að meðal flóttafólksins leynist vígamenn, …
Ýmsir hafa varað við því að meðal flóttafólksins leynist vígamenn, en sérfræðingar segja hryðjuverkasamtök búa yfir öðrum ráðum til að komast til Evrópu en hriplekum bátum. AFP

„Allir helstu hópar íslamista í Sýrlandi og Írak beina nú kröftum sínum að bardögum í þeim ríkjum og hafa takmarkað sig, að minnsta kosti opinberlega, við að hvetja stuðningsmenn sína sem geta ekki ferðast til Sýrlands og Írak og eru þegar í Evrópu, til að fremja árásir í sínu nafni í sínum löndum, í stað þess að senda fólk til baka,“ segir Henman hjá IHS.

Mennirnir þrír sem stóðu fyrir árásunum í París í janúar sl. höfðu allir lýst hollustu við Ríki íslam. Alain Chouet, fyrrverandi yfirmaður frönsku leyniþjónustunnar DGSE, segir þá kenningu að vígamenn leynist meðal flóttamanna ekki halda vatni.

„Það er ekkert vit í því, aðgerðarlega séð, fyrir hryðjuverkahóp að taka slíka áhættu,“ segir hann. Chouet segir að Ríki íslam hefði burði til þess að senda liðsmenn sína til Evrópu með flugi og „fínt“ vegabréf. Þau muni alltaf geta fundið „þrjá hálfvita“ til að ganga erinda sinna.

Eftirlitsmartröð

Óttinn við afleiðingar flóttamannaflutninganna er þó líklegur til þess að auka á byrðar öryggisyfirvalda, sem eiga þegar fullt í fangi með að fylgjast með þekktum ógnum.

„Ef þú horfir til hans í hlutfalli við fjölda hælisleitenda sem hingað koma og til þeirrar staðreyndar að litlar upplýsingar liggja fyrir um fólkið, þá gefur það þér hugmynd um umfang verkefnisins,“ segir Henman.

Það væri rangt að hunsa mögulega hættu, segir einn sérfræðinganna, …
Það væri rangt að hunsa mögulega hættu, segir einn sérfræðinganna, en að sama skapi gæti ímynduð ógn gefið flokkum andvígum innflytjendum byr undir báða vængi. AFP

Eric Denece hjá Centre for Research and Intelligence í Frakklandi er einnig meðal þeirra sem varar við því að gera of mikið úr ógninni af vígamönnum í dulargervi, sem flokkar andvígir innflytjendum gætu byggt á.

„Að ýkja hættuna er heimskulegt, en að afneita henni fullkomlega væri rangt,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka