„Þau sveigjast mikið þessi háhýsi en eru byggð til að skjálfa ekki,“ segir Einar Pétur Jónsson, sem búsettur er í Santiago og fann vel fyrir jarðskjálftanum sem reið yfir Chile í gær. Hann segir að mikil hræðsla hafi gripið um sig í kjölfar hins 8,3 stiga skjálfta, ekki síst vegna reynslunnar af skjálftanum 2010, þegar stór flóðbylgja gekk yfir strandlengjuna með tilheyrandi eyðileggingu og mannfalli.
Einar býr á 12. hæð. „Þetta var rosa mambó bara,“ segir hann um jarðhræringarnar.
Einar segist ekki hafa orðið var við að skjálftinn hafi valdið eyðileggingu í Santiago. „En maður veit aldrei með fátækrahverfin, gettóin. Það er ekki mikið vitað um þau. Það getur vel verið að það hafi farið eitthvað illa þar og það komi ekki í ljós strax,“ segir hann.
Nokkur ringulreið skapaðist hins vegar í borginni eftir að samgöngur voru stöðvaðar í kjölfar skjálftans.
„Lestarnar náttúrulega stoppuðu og þá fer allt í rugl í svona stórborg,“ segir Einar. Hann segir að fólki hafi verið mikið í mun að komast heim. „Ég heyrði nágranna koma móða, hlaupandi upp tólf hæðir, og gráta í fangi ástvina,“ segir hann.
Í kjölfar skjálftans, sem reið yfir kl. 19.54 að staðartíma, voru milljónir manna hvattir til þess að leita hærra upp vegna mögulegrar flóðbylgju, sem reyndist svo minni en óttast hafði verið. Fólk var afar hrætt að sögn Einars, minnugt mannfallsins í kjölfar hins 8,8 stiga skjálfta sem reið yfir 2010, en þá létust fleiri en 500.
Flóðbylgjan skolaði með sér bifreiðum og gámum í einhverjum bæjum, varð hæst 4,5 metrar og náði um 500 metra inn í land. Fjölda eftirskjálfta varð vart í kjölfar þess stóra.
„Ég var vakandi eftir þennan skjálfta sem varð þarna fimm mínútur í átta og þegar ég fór að sofa að verða tvö þá voru fjörtíu eftirskjálftar komnir og þeir hlaupa á tveimur tugum sem ég fann fyrir,“ segir Einar. „Einn þeirra var alveg 7,6 stig og það voru fimm yfir 6 stig. Þannig að þetta voru mjög stórir eftirskjálftar, fyrir okkur Íslendinga alla vegna.“
Einar, sem er að læra sjávarlíffræði, segist telja að viðvörunin sem gefin var út vegna flóðbylgjunnar hafi átt rétt á sér, jafnvel þótt flóðbylgjan hafi reynst minni en óttast hafði verið. Hann segist hafa heyrt af skemmdum af völdum skjálftans sjálfs, t.d. hafi hluti verslanamiðstöðvar hrunið í borginni La Serena.