Hollenski blaðamaðurinn Harald Doornbos lét útbúa fyrir sig falsað sýrlenskt vegabréf í því skyni að kanna hversu mikið mál það væri. Vinnan tók 40 klukkustundir og kostaði 750 evrur eða sem samsvarar 108 þúsund krónum. Myndin sem notuð var er af mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. Fjallað er um málið í þýska dagblaðinu Die Welt.
„Það eina sem þarf er símabúmer hjá einhverjum af þeim fjölmörgum fölsurum sem taka slíkt að sér og 750 evrur,“ er haft eftir Doornbos. Fram kemur í fréttinni að veruleg eftirspurn sé eftir fölsuðum sýrlenskum vegabréfum. Landamærastofnun Evrópusambandsins, Frontex, hafi í september hvatt Tyrkland til þess að taka á vandamálinu innan sinna landamæra.
„Margt fólk verður sér úti um fölsuð sýrlensk vegabréf í Tyrklandi vegna þess að það veit að það auðveldar þeim að fá hæli innan Evrópusambandsins,“ er haft eftir Fabrice Leggeri, yfirmanni Frontex. Þá segir að þýskir tollverðir hafi nýverið lagt hald á pakka sem innihélt bæði fölsuð og raunveruleg sýrlensk vegabréf.
Hins vegar segir í fréttinni að oft komist upp um fólk vegna þess að það tali ekki eins og Sýrlendingar. Þó það tali arabísku sé hreimurinn gjarnan ekki réttur.