Boða endalok dísilbílsins

Dísilvél úr Audi A3 TDI árgerð 2010 sem er ein …
Dísilvél úr Audi A3 TDI árgerð 2010 sem er ein þeirra tegunda sem Volkswagen hefur þurft að afturkalla vegna svikanna. AFP

Greinendur í bílaiðnaði og fjárfestar eru byrjaðir að spá því að hneykslismálið í kringum bílaframleiðandann Volkswagen sem svindlaði á útblástursprófum geti valdið endalokum dísilbílsins. Evrópsk stjórnvöld höfðu hampað honum sem umhverfisvænni kosti en bensínbílum þrátt fyrir aukna loftmengun.

Útblásturssvindl Volkswagen heldur áfram að draga dilk á eftir sér en hlutabréf í fyrirtækinu hafa hríðfallið í verði eftir að það kom upp og allt bendir til þess að dagar stjórnarformannsins Martins Winterkorn í starfi séu taldir. Málið gæti þó einnig haft víðtækari afleiðingar fyrir framleiðslu dísilbíla sem slíkra.

Breska blaðið The Telegraph segir frá því að fjárfestingafélagið Bernstein haldi því fram að hneykslið þýði líklega að dagar dísilbílsins séu taldir. Markaðshlutdeild dísilbíla í Evrópu eigi eftir að hrapa og stöðvast algerlega í Bandaríkjunum. Eftirlitsaðilar muni nú herða reglur sínar og strangari próf þýði að það verði of erfitt eða of kostnaðarsamt að reyna að standast þau.

Jim Holder, framkvæmdastjóri Haymarket Automotive sem gefur út tímarit eins og WhatCar og AutoCar, segir við breska ríkisútvarpið BBC að viðlíka hneyksli hafi aldrei komið upp í bílaiðnaðinum og ein afleiðing gæti orðið sú að dísilvélar fyrir bíla verði óhagkvæmar.

BBC hefur einnig eftir Martin Leach, fyrrverandi yfirmanni Ford í Evrópu, að ólíklegt sé að uppljóstrunin um svik Volkswagen í Bandaríkjunum sé vísbending um víðtækara svindl bílaframleiðenda á útblástursprófum. Prófanir evrópskrar eftirlitsaðila séu strangari en í Bandaríkjunum og erfiðara svindla á þeim.

Minni koltvísýringur en meira niturdíoxíð

Þegar ríki heims byrjuðu að grípa til aðgerða í loftslagsmálum á 10. áratug síðustu aldar veðjuðu evrópsk stjórnvöld á dísilbíla til þessa að freista þess að draga úr losun álfunnar á gróðurhúsalofttegundum, meðal annars vegna þrýstings frá stóru þýsku bílaframleiðendunum sem sögðu dísil ódýra og hraðvirka leið til að draga úr losun. Um þetta er fjallað í grein á vef The Guardian.

Um 15% minna af koltvísýringi losnar við bruna dísilolíu en hefðbundins bensíns. Ókosturinn er hins vegar að útblástur dísilbíla inniheldur fjórum sinnum meira niturdíoxíð sem tengist loftmengun og ýmsum heilsufarsvandamálum. Það var losun á þeirri lofttegund sem Volkswagen faldi með sérstökum hugbúnaði í bílum sínum. Í prófunum í Bandaríkjunum var losun niturdíoxíðs um 40 sinnum minni en þegar bílarnir voru komnir út á götuna. 

Á meðan stjórnvöld í ýmsum Evrópulöndum greiddu götu dísilbíla með ýmsum hvötum héldu Bandaríkjamenn, þar sem bensín var hræódýrt og bílaframleiðendur þróuðu frekar rafmagns- og blendingsbíla sem umhverfisvænni kosti, sig að mestu leyti við bensínbíla. Í sumum Evrópulöndum eins og Bretlandi náðu dísilbílar um helmings markaðshlutdeild árið 2012.

Afleiðingin hefur verið verri loftmengun og hafa margir stjórnmálamenn síðan lýst því yfir að það hafi verið mistök að stuðla að útbreiðslu dísilbíla. Nýlegar rannsóknir hafa meðal annars sýnt að dísilgufa sé enn verri fyrir heilsu fólks en áður hafði verið talið. Hún geti valdið krabbameinum, hjartaáföllum og hægt á vexti barna.

Grein The Guardian um sögu ríkisstuðnings við dísilbíla

Frétt The Telegraph um hugsanlega dauða dísilbílsins

Frétt BBC af hneykslismálinu í kringum Volkswagen

Volkswagen er nú í kröppum dansi. Verð hlutabréfa í bílarisanum …
Volkswagen er nú í kröppum dansi. Verð hlutabréfa í bílarisanum hefur hríðfallið undanfarna daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert