Mörg hundruð þúsund manns á leið til Mekka. Gríðarlegur troðningur á þröngum götum og torgum. Við þessar aðstæður er nú ljóst að í það minnsta 453 létust og 719 slösuðust í Mina í nágrenni Mekka í Sádi-Arabíu í morgun. Í frétt CNN kemur fram að troðningurinn hafi myndast í göngum sem gerð eru fyrir mannfjöldann á leið sinni til Mekka.
Milljónir pílagríma streyma ár hvert til hinnar helgu borgar á hajj-trúarhátíðina sem stendur í nokkra daga. Hátíðin er ein sú mesta í trúardagatali múslíma. Pílagrímarnir koma til Mina, sem er í um 5 km fjarlægð frá Mekka, til að henda steinum í stólpa sem eiga að tákna djöfulinn.
Í Mina-dalnum, þar sem slysið átti sér stað, eru meira en 160 þúsund tjöld pílagríma sem taka þátt í hátíðinni.
Líklegt er að tala látinna eigi eftir að hækka enn meira en innanríkisráðuneytið segir nú að í það minnsta 453 hafi látist í troðningnum. Fyrstu fréttir hermdu að um 100 hefðu látist.
Um 4.000 manna björgunarlið, m.a. hermenn, voru sendir á vettvang í morgun. Þeir sem eru slasaðir eru fluttir á fjögur sjúkrahús í nágrenninu. Þau verða því yfirfull áður en langt um líður.
Ekki er enn ljóst hvað olli því að þessi mikli troðningur myndaðist en oft þarf ekki mikið til að svo gerist.
Á undanförnum árum hafa mörg slys orðið í tengslum við komu allra pílagrímanna til Mekka.
2015: 107 létust í september er byggingarkrani hrundi á mosku í Mekka við undirbúning hajj-hátíðarinnar.
2006: 364 pílagrímar létust í troðningi.
1997: 343 pílagrímar létust og 1.500 slösuðust í eldsvoða.
1994: 270 létust í troðningi
1990: 1.426 pílagrímar létust í göngum á leið til helgra staða hátíðarinnar.