Konungur Sádi-Arabíu hefur fyrirskipað að öryggisúttekt fari fram fyrir hajj-trúarhátíðina eftir að a.m.k. 717 létu lífið í troðningi nærri Mecca. Alls slösuðust 863 þegar fólksfjöldinn fór úr böndunum, en tvær milljónir pílagríma voru þá saman komnir til að taka þátt í síðasta stórviðburði hátíðarhaldanna.
Salman konungur sagði m.a. að nauðsynlegt væri að bæta úr skipulagi og framkvæmd hvað varðaði för pílagríma. Sérstök rannsóknarnefnd hefur verið sett á laggirnar til að rannsaka atvikið.
Khaled al-Falih, heilbrigðisráðherra Sádi-Arabíu, segir að troðningurinn hafi myndast þegar fjöldi pílagríma flutti sig til án tillits til tímaáætlunar yfirvalda.
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Íran, hefur sagt að yfirvöld í Sádi-Arabíu verði að axla ábyrgð á ógæfunni, en að minnsta kosti 95 Íranar voru meðal látnu. Leiðtoginn sagði að slysið mætti rekja til óstjórnar og rangra aðgerða.
Slysið átti sér stað í Mina, sem er dalur í um 5 km fjarlægð frá Mekka. Þangað ferðast pílagrímarnir á meðan hajj stendur yfir, til að kasta sjö steinum í stólpa að nafni Jamarat, sem eru táknmynd djöfulsins.
Atvikið átti sér stað kl. 9 að staðartíma, þegar pílagrímarnir voru á göngu í átt að hinni fimm hæða byggingu sem umlykur stólpana. Þá ganga þeir eftir leið sem er kölluð Jisr Al-Jamaraat, eða Jamarat-brú.
Að sögn Maj Gen Mansour al-Turki, talsmanns innanríkisráðuneytis Sádi-Arabíu, átti troðningurinn sér stað þegar tveir stórir hópar pílagríma, sem voru að koma úr sitt hvorri áttinni, runnu saman á einni götu.
Á myndum má sjá lík pílagríma liggja í hrönnum, en allir voru þeir klæddir í hinn einfalda hvíta klæðnað sem tilheyrir hajj-hátíðarhöldunum.
„Ég sá einhvern detta um mann í hjólastól, og nokkra detta um hann,“ sagði Abdullah Lotfy frá Egyptalandi í samtali við Associated Press. „Fólk var að klifra yfir hvort annað bara til að ná andanum.“
Bashir Sa'ad Abdullahi, ritstjóri BBC í Abuja, sagðist hafa séð líka svo langt sem augað eygði.
Allir færir fullorðnir múslimar verða að taka þátt í hajj að minnsta kosti einu sinni á ævinni ef þeir hafa ráð á því. Fjöldi þeirra sem tekur þátt í hátíðarhöldunum hefur aukist úr 57.000 árið 1921, í 3,2 milljónir árið 2012. Hins vegar nam fjöldi þátttakenda tveimur milljónum í fyrra.