Stökk yfir girðingu og hitti páfann

Sofia Cruz stöðvuð af öryggisvörðum í Washington í Bandaríkjunum í …
Sofia Cruz stöðvuð af öryggisvörðum í Washington í Bandaríkjunum í gær. AFP

Sofia Cruz, fimm ára hugrökk stúlka með svartar fléttur, greip tækifærið þegar hún sá Frans páfa nálgast á leið sinni til Hvíta hússins Washington í Bandaríkjunum í gær. Hún vildi gjarnan koma skilaboðum á framfæri til páfans og tókst ætlunarverk sitt. Hún vill að innflytjendur sem hafa ekki leyfi til að vera í landinu fái að dvelja þar áfram.

Foreldrar hennar eru frá Mexíkó en hún fæddist í Bandaríkjunum. Hún ferðaðist með foreldrum sínum og hópi annarra kaþólikka frá Los Angeles til Washington til að berja páfann augum.

Stúlkan klifraði í snarhasti yfir girðingu sem skildi páfann og mannfjöldann að og tók stefnuna að páfanum. Öryggisverðir gómuðu hana þó þegar hún var komin hálfa leið en páfinn, líkt og Jesús er sagður hafa gert forðum daga, bað mennina um að leyfa barninu að koma til sín og bílstjórann um að stöðva bifreiðina. Páfinn faðmaði og kyssti stúlkuna og tók við bréfi frá henni þar sem hún greindi frá bón sinni.

Blaðamaður Guardian ræddi við stúlkuna sem segist kunna efni bréfsins, bæði á ensku og spænsku. „Ég vil segja þér að hjarta mitt er sorgmætt,“ er haft eftir stúlkunni. „Allir innflytjendur líkt og pabbi minn hjálpa til við að fæða þetta land. Þau eiga skilið að lifa með reisn. Þau eiga skilið að þeim sé sýnd virðing,“ sagði stúlkan.

Frans páfi er í þriggja daga heimsókn í Washington í …
Frans páfi er í þriggja daga heimsókn í Washington í Bandaríkjunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka