Íranar eru meðal þeirra sem gagnrýna stjórnvöld í Sádi-Arabíu harðlega í kjölfar slyssins við Mekka í gær. 717 létust í miklum troðningi er pílagrímar í þúsundavís gengu samtímis, í 46 stiga hita, í átt að helgum stað í Mina-dalnum. 863 eru slasaðir. Flestir þeirra sem létust eru frá Íran eða 131.
Öryggisráð Írans sakar Sáda um getuleysi og hvetur þá til að axla ábyrgð á slysinu.
Stjórnvöld í Nígeríu segjast blása á þær skýringar Sáda að pílagrímarnir hafi ekki fylgt leiðbeiningum. Því hafi farið sem fór.
Konungur Sádi-Arabíu hefur farið fram á að slysið verði rannsakað.
Gríðarlegur troðningur myndaðist á gatnamótum sem pílagrímarnir ganga um á leið sinni að stólpum í Mina-dalnum sem þeir svo kasta steinvölum í áður en haldið er til Mekka. Þeir henda sjö steinvölum í stólpana sem eiga að tákna djöfulinn. Stólparnir standa á stað sem Satan er sagður hafa freistað spámannsins Múhameðs.
Slysið átti sér stað kl. 9 að morgni að staðartíma. Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að stórir hópar pílagríma hafi komið að gatnamótum úr sitt hvorri áttinni. Allir voru þeir á leið að sömu götunni, í átt að stólpunum.
Þegar hópurinn sameinaðist svo á gatnamótunum myndaðist þessi mikli troðningur í 46 stiga hita. Margir féllu í yfirlið og tróðust undir.