Æðsti trúarleiðtogi Sádi-Arabíu segir að troðningur sem leiddi til dauða 717 pílagríma hafi verið æðri mannlegri stjórn. Frá þessu greindi þarlendur fjölmiðill, á síðasta degi pílagrímsfararinnar.
Troðningurinn er sá versti á 25 árum á árlega trúarviðburðinum og voru yfirvöld í Sádi-Arabíu harðlega gagnrýnd fyrir öryggisráðstafanir, sérstaklega frá nágrannaríkinu Íran.
„Þið eruð ekki ábyrg fyrir því sem skeði,“ sagði Abdul Aziz al-Sheikh við krónprins Sádi-Arabíu, Mohammad bin Nayef, á fundi í Mina í gær.
„Hlutum sem menn fá ekki ráðið, verður ykkur ekki kennt um. Örlög og hlutskipti eru óumflýjanleg,“ sagði sjeikinn við prinsinn, sem einnig er innanríkisráðherra landsins.
Mohammad fer fyrir Sádi-pílagrímaráðinu og hefur hann fyrirskipað rannsókn á atburðum fimmtudagsins þegar gríðarlegur troðningur myndaðist á gatnamótum sem pílagrímar ganga um á leið sinni að stólpum í Mina-dalnum sem þeir kasta steinvölum í áður en haldið er til Mekka.
Salman bin Abdulaziz Al Saud, konungur Sádi-Arabíu, sem er titlaður „verndari heilögu mosknanna tveggja“ í Mekka og Medína, fyrirskipaði einnig endurskoðun á því hvernig pílagrímaförin er skipulögð.
Frá því snemma í morgun hafa hópar pílagríma ferðast í átt að Jamarat brúnni á síðasta degi þriggja þar sem sem steinvölum er kastað.
Innanríkisráðuneytið hefur tilkynnt um að 100 þúsund lögreglumenn hafi það hlutverk að tryggja pílagrímaförina og stjórna hópnum.
Pílagrímar hafa sagt að troðningurinn hafi komið til vegna vegalokunar lögreglu og slæmrar stjórnunar á flæði hundruða þúsunda pílagríma í heitu loftslagi.
Abdullah al-Sheikh, stjórnarmaður í Shura-ráðinu, ráðgjafarráði ríkisstjórnarinnar, lagði áherslu á að pílagrímar verði að fara eftir „reglum sem starfsmenn öryggismála hafa sett. Með því að gera það er verið að vernda líf þeirra, öryggi þeirra og þeim auðveldað að iðka helgisiði sína.“
Heilbrigðisráðherra Sádi-Arabíu hefur áður haft uppi álíka athugasemdir, sem vísar ábyrgðinni á hendur pílagríma.
Í athugasemdum sínum í gær biðlaði stjórnarmaðurinn í Shura-ráðinu til þegna landsins og múslima að hunsa „þessar hlutdrægu herferð óvina þessa hreina ríkis, sem gera góða fyrirhöfn konungsdæmisins til þess að tryggja trúarlega væðið tortryggilega, og þjóna gestum og pílagrímum.“
Nágrannaríkið Íran sagði að 131 af þegnum landsins hafi verið á meðal fórnarlamba troðningsins. Þarlend yfirvöld juku í gær á gagnrýni sína á konungsdæmið og kröfðust þess að þau lönd sem ættu í hlut fengju hlutverk í rannsókn yfirvalda á hörmungunum.
„Sádi Arabía er óhæft um að skipuleggja pílagrímsferðina,“ sagði Ayatollah Mohammad Emami Kashani, sem leiðir vikulegar bænir í Tehran, höfuðborg Írans.
„Framkvæmd pílagrímsfararinnar verður að færa í hendur íslamskra ríkja,“ sagði hann.
Nokkur Afríkuríki hafa staðfest að þeirra ríkisborgarar hafi látið lífið í troðningnum og einnig Indland, Indónesía, Pakistan og Holland.
Forseti Nígeríu, Muhammadu Buhari, brýndi fyrir því við konung Sádi Arabíu að farið verði í yfirgripsmikla og vandaða athugun á því hvaða gallar séu á skipulagningu pílagrímsfararinnar.
Sagði hann að landið hefði misst nafntogaðan blaðamann, prófessor og aðra í troðningnum.
Eftir níu ár af stórslysalausum pílagrímsförum kom upp tvöföld hörmung á pílagrímsförinni í ár. Nokkrum dögum áður en pílagrímsförin hófst, hrundi byggingarkrani við heilagt svæði með þeim afleiðingum að 109 manns létust.
Pílagrímsförin er einn af fimm máttarstólpum íslam, sem allir múslimar, sem telja yfir 1,5 milljarð manna, eiga að fara í að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni, svo framarlega að þeir hafi getu til.