Æðsti leiðtogi Íran, Ayatollah Ali Khamenei, hefur krafist þess að stjórnvöld í Sádi-Arabíu biðjist afsökunar á troðningnum sem myndaðist þegar þúsundir pílagríma söfnuðust saman í tilefni hajj, með þeim afleiðingum að 770 létu lífið.
„Í stað þess að koma ábyrgðinni yfir á aðra, ættu Sádarnir að standa sína pligt og biðja múslima og syrgjandi fjölskyldur afsökunar,“ var haft eftir leiðtoganum í fréttum ríkisfréttastofunnar IRNA.
Leiðtogar Íran hafa harðlega gagnrýnt yfirvöld í Sádi Arabíu fyrir öryggismál á hajj og varpað fram þeirri spurningu hvort þau séu hæf til að halda utan um skipulag pílagrímahátíðarinnar.
Fregnir af kröfu Khamenei bárust á hæla ummæla Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, sem gagnrýndi Írana fyrir að nýta sér harmleikinn í pólítískum tilgangi.
Menningarmálaráðherra Íran, Ali Janati, er væntanlegur til Sádi-Arabíu ásamt sendinefnd, vegna þeirra 323 Írana sem yfirvöld í Tehran segja að enn sé saknað. Að minnsta kosti 144 Íranar létust í harmleiknum.