Hefur fyrirgefið móður sinni

Kelly Gissendaner.
Kelly Gissendaner. AFP

Kayla Gissendaner, dóttir Kelly Gissendaner sem taka á af lífi á morgun, segir móður sína hafa breyst frá því að hún skipulagði morð á eiginmanni sínum og föður Kaylu árið 1997. Verði hún tekin af lífi verður hún fyrsta konan sem tekin verður af lífi í Georgíuríki í Bandaríkjunum í sjötíu ár.

Aftökunni hefur tvisvar verið frestað á þessu ári. Í lok febrúar var aftökunni frestað vegna óveðurs en í byrjun mars þóttu lyfin sem átti að nota ekki jafn tær og eðlilegt þykir. Var því ákveðið að fresta aftökunni um óákveðinn tíma.

Mörgum finnst Kelly hafa lifað nógu lengi, þar á meðal foreldrar eiginmanns hennar og systkini hans. Börn hjónanna eru aftur á móti ekki sammála. „Faðir minn myndi ekki vilja að móðir mín  yrði tekin af lífi, jafnvel þó að hann vissi hvaða þátt mamma átti í morðinu,“ segir Kayla í samtali við CNN.

Kayla var aðeins sjö ára gömul þegar faðir hennar var stunginn í bakið og hálsinn. Hún missti þar með besta vin sinn og komst síðar að því að móðir hennar hafði skipulagt morðið. Kayla varð afar reið þegar hún heyrði sannleikann og hætti að heimsækja móður sína.

Hún saknaði þess þó að fá ekki svör við ótal spurningum sem herjuðu á hana og fyrir sex árum heimsótti hún móður sína loks aftur. Þær höfðu aldrei talað um morðið og framundan voru erfiðar samræður í heimsóknarherbergi fangelsisins.

„Ég þurfti að horfast í augu við það sem mamma gerði og finna leið til að fyrirgefa henni,“ segir Kayla. „Í ferlinu sá ég að móðir mín hafði í mörg ár reynt að takast á við það sem hún hafði gert og horfast í augu við hrylling gjörða hennar,“ segir hún einnig.

Lögræðingar Kelly hafa farið fram á að aftakan fari ekki fram.

Frétt mbl.is: Aftökunni frestað aftur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert