Mörg hundruð talibanar réðust á afgönsku borgina Kunduz í morgun. Þeir hafa nú náð yfirráðum í hálfri borginni að sögn lögreglu.
Talibanar réðust inn í byggingar stjórnvalda í borginni, þar á meðal fangelsi. Hörð átök geisa nú á svæðinu og að sögn vitna er búið að flagga fána talibana í miðbæ borgarinnar.
Ef að borgin fellur er það fyrsta borg sem talibanar ná á sitt vald síðan þeir misstu völd sín í kjölfar innrásar Vesturlanda í Afganistan árið 2001.
Staðsetning Kunduz er mikilvæg hernaðarlega séð í Afganistan og er hún notuð sem samgöngumiðstöð fyrir norðurhluta landsins. Hún er einnig táknræn fyrir talibana en borgin var eitt höfuðvíga talibana í Afganistan árið 2001.
Yfirvöld hafa viðurkennt að þau hafi misst stjórnina í hlutum borgarinnar. Að minnsta kosti 25 skæruliðar og tveir lögreglumenn hafa látið lífið í átökunum.
Talsmaður lögreglunnar í Kunduz, Sayed Sarwar Husaini, sagði í samtali við BBC að skæruliðar hafi brotist inn í fangelsi og frelsað um 500 fanga, þar á meðal talibana.
Margir embættismenn reyna nú að flýja borgina.
Í frétt BBC kemur fram að Kunduz svæðið hafi orðið fyrir fjölmörgum árásum talibana síðan í apríl. Að sögn fjölmiðla á svæðinu réðust talibanar inn í borgina á þremur stöðum við dögun. Stuttu eftir hádegi var búið að flagga fána talibana á stærsta torgi miðbæjarins.
„Talibanar hafa tekið yfir hverfið okkar. Ég get séð þá berjast hérna,“ sagði blaðamaður AFP sem staddur er í borginni.