Bandaríkjamenn hafa ekki áhuga á nýju köldu stríði vegna átakanna í Úkraínu og eru tilbúnir að vinna með bæði Rússum og Írönum til að finna lausn á ástandinu í Sýrlandi. Þetta sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag.
Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum vestrænna ríkja og Rússa frá því að þeir síðarnefndu innlimuðu Krímskaga. Rússar hafa síðan verið sakaðir um að taka þátt í átökum aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu gegn þarlendum stjórnvöldum. Obama sagði að þær refsiaðgerðir sem vesturveldin hefðu beitt Rússa hafi átt að vernda fullveldi Úkraínu en ekki koma af stað ófriði við stjórnvöld í Moskvu.
„Við getum ekki staðið til hliðar þegar fullveldi og landsvæði þjóðar er rofið blygðunarlaust. Ef það gerist án afleiðinga í Úkraínu gæti það komið fyrir hverja þá þjóð sem komin er saman hér í dag,“ sagði Obama.
Rangt væri að styðja harðstjóra eins og Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, eins og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, vill að ríki heims geri til að berjast gegn Ríki íslams. Stjórnvöld í Washington væru hins vegar reiðubúin til að vinna með öllum sem tilbúnir væru til að berjast gegn uppgangi íslamista á svæðinu.
„Bandaríkin eru tilbúin að vinna með hvaða þjóð sem er til að leysa úr átökunum, þar á meðal Rússlandi og Íran,“ sagði Obama í ræðu sinni á allsherjarþinginu.