Kvartar undan áhugaleysi Bandaríkjamanna

AFP

„Frakkland er að skoða alla möguleika, þar með talið að bundinn verði hreinlega endir á viðræðurnar,“ sagði Mathias Fekl, viðskiptaráðherra Frakklands, í samtali við franska héraðsblaðið Sud Ouest í gær um stöðu fríverslunarviðræðna Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

Formlegar fríverslunarviðræður hafa staðið yfir frá því í júlí 2013. Upphaflega var ætlunin að ljúka viðræðunum í lok árs 2014. Hins vegar var í maí 2014 tilkynnt að stefnt væri að því að ljúka þeim í lok þessa árs. Nú er hins vegar ljóst að af því verður ekki. Óvíst er hversu langan tíma viðræðurnar kunna að taka en rætt hefur verið um nokkur ár í því sambandi.

Ljóst er að ýmis ljón eru í veginum. Bandaríkjamenn hafa viljað halda fjármálageiranum fyrir utan fríverslunarviðræðurnar og Evrópuþjóðir hafa á móti viljað að mögulegur samningur næði ekki til kvikmyndageirans og framleiðslu sjónvarps- og útvarpsefnis. Þá hafa ekki síst Frakkar verið með ýmsa fyrirvara vegna landbúnaðarframleiðslu Bandaríkjanna.

Við það bætist að vaxandi andstaða hefur skapast innan Evrópusambandsins við fyrirhugað ákvæði í mögulegum samningi um að fjárfestar geti kært aðildarríki hans fyrir sérstökum dómstólum ef teknar eru ákvarðanir sem fara gegn honum. Slíkir dómstólar yrðu fyrir utan opinbert dómskerfi aðildarríkjanna. Óvíst er hvort lending næst í þeim efnum.

Fekl gagnrýnir að þingmenn á Evrópuþinginu hafi ekki sama aðgang að upplýsingum um gang fríverslunarviðræðnanna og bandarískir þingmenn. Gagnsæi í viðræðunum væri fyrir vikið ekki fyrir hendi og skortur á því gæti orðið til þess að viðræðurnar sigli í strand. Evrópusambandið hafi reynt að finna lausn á málum en lítið væri um slíka viðleitni hjá Bandaríkjamönnum.

„Verði ekki breyting á þessu sýnir það að ekki sé áhugi til staðar fyrir viðræðum með það að markmiði að báðir aðilar hafi hag af,“ segir ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert