Faðir ungs manns sem var stunginn til bana af félaga í gríska stjórnmálaflokknum Gullin dögun árið 2013 segir árásina hafa verið skipulagt morð.
Panagiotis Fyssas segir að um 60 félagar í Gullinni dögun hafi ráðist á son hans, Pavlos, fyrir utan kaffihús. Nokkrir lögreglumenn stóðu þar nærri og horfðu á án þess að aðhafast nokkuð.
„Hann stakk hann í tvígang í hjartað... læknirinn á sjúkrahúsinu segir að þetta hafi verið ve3rk atvinnumanns, stungur sem ollu innvortis blæðingum,“ sagði Fyssas við réttarhöldin.
Hann segir að Yiorgos Roupakias, vörubílstjóri sem játaði á sig morðið, hafi verið fyrirskipað að drepa son hans vegna andúðar hans á fasistum. „Þessi samtök þagga niður í þeim sem eru þeim andsnúnir,“ segir Fyssas. „Þeir gera ekkert án þess að fá fyrirskipanir.“
Réttarhöld yfir 69 liðsmönnum og stuðningsmönnum þjóðernisflokksins Gullin dögun hófust í apríl en miðar hægt áfram vegna karps.
Embætti ríkissaksóknara er að reyna að sanna að Gullin dögun starfi sem skipulögð glæpasamtök þar sem foringjar flokksins stýra flokksmönnum með harðri hendi. Að leiðtogar flokksins hafi hvatt til barsmíða, jafnvel morðs á innflytjendum og pólitískum andstæðingum.
Formaður flokksins, Nikos Michaloliakos, viðurkenndi pólitíska ábyrgð á morðinu í síðasta mánuði en neitaði því að hafa brotið hegningarlög.
Gullin dögun fékk átján þingmenn kjörna í kosningunum fyrr í mánuðinum en flokkurinn sækir meðal annars fylgi sitt til grísku eyjanna Lesbos og Kos þar sem fjölmargir flóttamenn hafast við.