Mikill liðsafnaður er hjá afganska hernum eftir að talibanar náðu yfirráðum í borginni í gær. Þetta er stærsti sigur talibana frá því þeir voru hraktir frá völdum í Afganistan árið 2001. Bandaríkjaher tekur þátt í aðgerðum gegn talibönum með því að gera loftárásir á borgina. Aðgerðirnar hófust í nótt og hefur herinn náð höfuðstöðvum lögreglunnar og fangelsi borgarinnar aftur á sitt vald.
Sérsveitir afganska hersins flúðu borgina í gær og hafast við á flugvellinum fyrir utan hana. Talibanar komu inn í Kunduz í gær með fjölmennt lið og náðu mörgum stjórnarbyggingum á sitt vald ásamt því að frelsa hundruð fanga úr haldi.
Þykir þetta mikil niðurlæging fyrir stjórnvöld í Afganistan en sérsveitir hersins eru þjálfaðar af herliði Atlantshafsbandalagsins sem var árum saman í landinu. Íbúar í Kunduz eru margir hverjir skelfingu lostnir og hafa flúið borgina. Innrás talibana inn í Kunduz þykir til marks um að styrkur talibana sé mun meiri í Afganistan en haldið hefur verið fram.
Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að herinn muni ná borginni á sitt vald á ný og herinn undirbúi sig undir árás í dag. Aðstoðar-innanríkisráðherra Afganistan, Ayoub Salangi, segir að herinn sé reiðubúinn til þess að ná borginni á sitt vald á ný en rannsaka þurfi hvernig talibönum tókst að ná jafnmikilvægri stórborg og Kunduz er eftir 14 ár á undanhaldi.