Daginn eftir að almennur borgari lagði fram formlega kæru hjá lögreglu sagði varnarmálaráðherra Danmerkur, Carl Holst, af sér. Hann hafði gegnt embættinu í þrjá mánuði. Í tilkynningu sem Holst sendi frá sér í gær kom fram að hann hefði tjáð forsætisráðherra afsögn sína sem varnarmálaráðherra og ráðherra norrænnar samvinnu.
Hann segir að starf sitt sem stjórnarformaður Héraðssambands Suður-Danmerkur hafi yfirskyggt annað og því hafi hann ekki haft möguleika á að sýna getu sína í starfi sem ráðherra. Þetta hafi einnig litað störf ríkisstjórnarinnar og því hafi hann ákveðið að segja af sér embætti.
Holst hefur ítrekað komist í kastljós fjölmiðla vegna þess að hann hefur þegið laun frá Héraðssambandi Suður-Danmerkur þrátt fyrir að hafa látið af störfum hjá sambandinu. Hann fékk 833.040 danskar krónur á ári í laun þar auk þess sem árslaun ráðherra eru 1,2 milljónir danskra króna. Þetta þýddi að hann var með rúmar tvær milljónir danskra króna, 38,5 milljónir íslenskra króna, í árslaun.
Um miðjan september fóru að birtast fréttir um að Holst notaði almannatengil Héraðssambandsins til eigin starfa og að hann hafi unnið fyrir Holst í kosningabaráttunni á launum frá Héraðssambandinu. Í ljós kom að helming vinnutímans var almannatengillinn að vinna fyrir Holst og hans persónulegu mál.
Á mánudag var síðan upplýst um að Héraðssambandið, undir stjórn Holts, hafi breytt reikningi til þess að reyna að fela þá staðreynd að ráðgjafa hafi verið greitt fyrir að skrifa pólitískar greinar og ræður fyrir Holst á kostnað sambandsins.
Þessi misnotkun á opinberu fé varð til þess að þrír einstaklingar kærðu Holst til lögreglu.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, mun kynna nýjan varnarmálaráðherra til sögunnar klukkan 11, klukkan 9 að íslenskum tíma en Holst er fyrsti ráðherrann í ríkisstjórn Rasmussens sem þarf að segja af sér.