Ljósmyndari sýrlenska hersins tók í tvö ár tugi þúsunda mynda af líkum fanga sem höfðu verið pyntaðir til dauða í fangelsum sýrlenska ríkisins. Ljósmyndarinn flúði til Evrópu með 55 þúsund myndir af föngum sem voru pyntaðir til dauða.
Ljósmyndarinn, sem gengur undir heitinu „Caesar“ fer huldu höfði en segir sögu sína í fyrsta skipti í viðtali sem er birt í Guardian í dag.
Það tók blaðamanninn, Garance le Caisne tæpt ár að komast í samband við ljósmyndarann enda fer hann eðlilega huldu höfði. Myndirnar geta líkt haft úrslitaáhrif á að stjórnarherrar í Sýrlandi verði dæmdir fyrir stríðsglæpi. Þær eru eitt helsta gagn franskra yfirvalda sem hafa hafið rannsókn á því hvort stríðsglæpir hafi verið framdir í sýrlenskum fangelsum. Myndirnar eru af líkum fólks sem hefur verið pyntað, svelt og brennt.
Í tvö ár afritaði Caesar myndir sem hann var beðinn um að taka fyrir fyrir skjalasafn ríkisins. Hann notaði tölvu lögreglunnar í Damskus til þess að afrita myndirnar, 55 þúsund talsins, og setti þær á USB lykla sem hann smyglaði út af skrifstofu sinni. Hann faldi lyklana meðal annars í skóm eða belti sínu og lét þá í hendur vinar sem gat komið þeim úr landi.
Áður en uppreisnin hófst í Sýrlandi í marsmánuði 2011 starfaði Caesar sem myndasmiður á vegum ríkisins. Hans hlutverk var að taka myndir af slysum, sjálfsvígum ofl. og voru myndirnar notaðar við skýrslugerð og í dómsmálum. Þetta var tiltölulega auðveld vinna og störfuðu tugir ljósmyndara við þær.
Ekki hryðjuverkamenn heldur mótmælendur
Í mars/apríl 2011 breyttist allt. Þá lýsti starfsfélagi hans því hvernig hann hafi verið sendur til Daraa héraðs að mynda en þar hófust fyrstu friðsamlegu mótmælin sem síðar enduðu í borgarastyrjöld sem enn varir. „Hann grét þegar hann sagði mér að hermennirnir misþyrmdu líkunum. Þeir hafi traðkað á þeim á stígvélunum og öskrað tíkarsonur.“
Félagi Ceasars vildi ekki fara aftur í slíka myndatöku og í kjölfarið fór Ceasar. Hann segist hafa séð strax hvað félagi hans átti við. Því þrátt fyrir að yfirmennirnir hafi sagt að þetta væru lík af hryðjuverkamönnum þá vissi hann að svo var ekki. „Þetta voru bara mótmælendur,“ segir Ceasar í viðtalinu.
„Hvað á ég að gera“
Æskuvinur Caesars og trúnaðarvinur, Sami, lýsir því fyrir blaðamanni Guardian hvernig viðbrögð Caesars hafi verið. „Ég hef séð lík sem bera merki pyntinga. Enginn þeirra hefur dáið á eðlilegan hátt. Og það eru sífellt fleiri á hverjum degi. Tárvotur sagði Caesar: Hvað á ég að gera?,“ segir Sami sem tók á móti myndunum og lét Caesar fá nýja og nýja UBS lykla.
En Sami vissi að slíkar pyntingar hefðu verið stundaðar árum saman í Sýrlandi . Fangar sem höfðu dáið í dýflissum einræðisherrans, mótmælendur sem höfðu verið drepnir og lík þeirra látin hverfa. Hann hvatti Ceasar til þess að halda starfi sínu áfram og hét því að styðja hann, sama hvað á dyndi. Í tvö ár safnaði ljósmyndarinn ungi gögnum, sem settu hann í lífshættu, í þeirri von að færa sönnur á hvað sé í gangi í heimalandi þeirra.
Myndirnar eru nú til sýnis í Helfararsafninu í Washington og á netinu.
Áður en borgarastríðið braust út í Sýrlandi höfðu fangar verið pyntaðir en þá voru pyntingarnar til þess að fá játningar. Nú voru þær til þess að drepa.
Nafnlaus lík í þúsundatali
Eftir því sem tíminn leið þá fjölgaði líkunum hratt sem þurfti að mynda. Eftir 2012 varð verkefnið nánast óyfirstíganlegt og líkin hrúguðust upp, illa lyktandi rotnandi lík sem enginn vildi snerta nema fuglar sem kroppuðu í þau. Líkin voru nafnlaus, aðeins númer sem voru rituð á límbönd sem fest voru á enni fanganna. Stundum var ekki einu sinni límband heldur var númerið skrifað á enni líksins. Einu sinni taldi Caesar að líkið væri á lífi og brást líkskoðarinn illa við því það myndi rugla röðinni. Því var ljósmyndarinn sendur til að ná sér í te og þegar hann sneri aftur þá þurfti hann ekki að hafa lengur áhyggjur af fanganum því hann var dáinn.
Yfirleitt var dánarorsökin skráð hjartaáfall eða einhver önnur meinsemd. Að sjálfsögðu er hvergi skráð að viðkomandi hafi verið pyntaður. Það kemur hvergi fram á skrám að fangarnir hafi verið brenndir, til að mynda með hitaplötum, í andliti, augun stungin úr þeim, brunasár á líkum eftir kerti, tennurnar brotnar úr þeim, áverkar eftir svipuhögg og för eftir rafmagnskapla sem eru notaðir þegar bílar eru rafmagnslausir. Stundum voru líkin svo fersk að þeim blæddi enn þegar myndatakan fór fram.
Líkin voru oft svo illa farin að erfitt var að bera kennsl á viðkomandi líkt og Ceasar upplifði þegar lík gamals vinar hans blasti við honum á mynd. Hann hafði sjálfur tekið myndina af líkinu en ekki þekkt þennan félaga sem hann hafði hitt daglega alla ævi þar til tveimur mánuðum áður en félaginn var fangelsaður. Tveimur mánuðum síðar var hann illa farið lík sem hafði dáið af eðlilegum orsökum í fangelsi. Faðir hans vildi ekki trúa því að sonur hans hefði dáið í fangelsi en Caesar varð að segja honum að það væri rétt. Hins vegar gat hann ekki sagt honum frá því að hann hefði séð lík hans og myndað það. Því enginn mátti vita af myndatökunum.
Enda neitaði Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, tilvist þeirra í löngu viðtali við bandaríska tímaritið Foreign Affairs í janúar 2015. Þar vísaði blaðamaðurinn til mynda Caesars sem sýndu skelfilegar pyntingar og misþyrmingar í sýrlenskum fangelsum.
„Hver tók myndirnar? svaraði forsetinn. Hver er hann? Enginn veit það. Það er engin sönnun á neinum þessara gagna. Svo þetta eru allt ásakanir án sannanna,“ sagði al-Assad í viðtalinu.