19 manns létu lífið í loftárás Bandaríkjahers á borgina Kunduz í Afganistan í nótt. Bandaríkjamenn eru grunaðir um að hafa varpað flugskeyti á læknastöð samtakanna Lækna án landamæra í borginni. Samtökin segja að tólf starfsmenn hafi látið lífið og sjö sjúklingar. Þá séu einnig 37 manns illa slasaðir.
Helena Jónsdóttir sálfræðingur hefur undanfarna mánuði starfað á sjúkrahúsi Lækna án landamæra í Kunduz í Afganistan. Hún segir að aðfararnótt síðastliðins mánudags hafi þau vaknað við óvenju harðar árásir í borginni og því hafi strax verið hafist handa við að tryggja öryggi starfsfólks samtaka Lækna án landamæra. Þá voru allir aðrir en læknar og þeir sem koma að því að bjarga lífum sendir í burtu.
Hún segir að frá þeim tíma hafi læknar á sjúkrahúsinu barist við að bjarga því sem bjargað varð en um 400 manns hafa leitað til sjúkrahússins undanfarna daga. Þá segir Helena að eftir árásina í nótt sé borgin án nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu í miðjum átökum þar sem að önnur sjúkrahús eins og ríkisspítalinn og heilbrigðisþjónusta í einkaeigu hafi lamast að mestu eftir árásina.
„Þetta er það alvarlegasta því spítali Lækna án landamæra hefur verið eini spítalinn sem fólk hefur getað leitað til og eins og staðan er núna er ekki verið að taka við nýjum sjúklingum heldur reynt að bjarga þeim sem þegar eru á sjúkrahúsinu,“ segir Helena.
Frétt mbl.is – Óskiljanlegt og skelfilegt
Zeid Ra'ad Al Hussein leiðtogi Sameinuðu þjóðanna sagði árásina harmleik sem er óafsakanlegur og jafnvel glæpsamlegur.
Þá hefur bandaríska sendiráðið í Kabul gefið frá sé yfirlýsingu vegna málsins þar sem það harmar atvikið og sendir samúðarkveðjur til þeirra sem eiga um sára hendur að binda vegna þessa.