Læknar án landamæra segja útilokað að skæruliðar talibana hafi haft sig við inni í sjúkrahúsinu í Kunduz þegar skotið var á spítalann. Hlið spítalans hafi verið lokuð og enginn þar inni sem ekki var starfsmaður eða sjúklingur. Spítalinn hafi vissulega tekið við sjúklingum óháð því fyrir hvern þeir börðust, í samræmi við langa sögu hlutleysis samtakanna, en engin afsökun geti verið fyrir því að skjóta á starfandi spítala.
Talsmaður samtakanna sagði árásina stríðsglæp. Enginn starfsmaður hafi heyrt skothríð frá spítalanum áður en árásin var gerð og sprengjum hafi varið varpað ítrekað og með mikilli nákvæmni á aðalbyggingu spítalans þar sem starfsmenn hafi verið að annast sjúklinga.
Síðustu tölur herma að 22 hafi látist í árásinni og fjölmargir aðrir særst. Tíu þeirra látnu voru sjúklingar og tólf starfsmenn spítalans.
Washington Post hefur eftir settum héraðsstjóra í Kunduz, Hamdullah Danishi, að hann telji engan vafa á því að talibanar hafi skotið ítrekað á afganska og bandaríska hermenn frá lóð spítalans. Hann sagði spítalann enn fremur hafa verið bækistöð talibana þaðan sem þeir hafi gert árásir í nágrenninu.
Hersveitir hafi látið sig hafa skothríðina frá spítalanum í nokkra daga þangað til skotið hafi verið á spítalagarðinn. Hann sagði ekki hafa verið skotið beint á spítalann en samt sem áður hafi hann orðið fyrir barðinu á skothríðinni.
Bandaríski herinn hefur boðað rannsókn á atvikinu á næstu dögum og því hvort Bandaríkjamenn hafi borið ábyrgð á árásinni. Læknar án landamæra hafa hins vegar krafist óháðrar rannsóknar.
Fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafa lýst hryggð yfir atvikinu og vottað samúð sína en hafa ekki viðurkennt ábyrgð á sprengjuárásinni.