Pistorius verður áfram í fangelsi

Oscar Pistorius hlaut fimm ára dóm í fyrra.
Oscar Pistorius hlaut fimm ára dóm í fyrra. AFP

Suðurafríski spretthlauparinn Oscar Pistorius þarf að dvelja áfram í fangelsi eftir að ákvörðunartöku um ósk hans um reynslulausn var frestað. Pistorius hefur farið fram á að afplána dóminn heima hjá sér í stofufangelsi.

Brian Webber, verjandi Pistoriusar, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna, að ákvörðun um reynsluleysn sé aftur á borði nefndar sem fjallar um reynslulausn. Þetta kemur fram á vef BBC.

Pistorius, sem er 28 ára gamall, var dæmdur í fimm ára fangelsi í fyrra fyrir að hafa orðið unnustu sinni, Reevu Steenkamp, að bana. 

Hann hefur barist fyrir því að fá að losna fyrr úr fangelsi.

Það stóð til að sleppa honum í ágúst sl. en ekkert varð úr því eftir að Michael Mashutha, dómsmálaráðherra Suður-Afríku, kom í veg fyrir það á elleftu stundu. 

Endurskoðunarnefnd sem fjallar um reynslulausn fanga kom saman í dag til að ræða hvort Pistorius yrði leyft að afplána dóminn heima hjá sér í stofufangelsi. 

Útlit er hins vegar fyrir að engin ákvörðun verði tekin á næstunni, en saksóknarar höfðu áfrýjað dómnum og hinn 3. nóvember fer fram munnlegur málflutningur. Svo gæti farið að dómurinn yfir Pistorius yrði lengdur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert