Hershöfðingi bandarískra hersveita í Afganistan sagði í dag að loftárás á sjúkrahús Lækna án landamæra í afgönsku borginni Kunduz hafi verið mistök.
Hershöfðinginn John Campell sagði í dag að Bandaríkin myndu aldrei ráðast viljandi á sjúkrahús. Að minnsta kosti 22 létu lífið í árásinni en hörð átök hafa staðið yfir í borginni síðan að talibanar réðust á borgina í síðustu ári. BBC segir frá þessu.
Campell sagði einnig í dag að Bandaríkin þyrftu að íhuga hvort aukið verði við herlið þeirra í Afganistan eftir næsta ár. Hann sagði það nauðsynlegt ef að árásir talibana myndu halda áfram en greint hefur verið frá því að áætlanir Bandaríkjahers séu að minnka fjölda hermanna þar úr 9.800 í 1.000 fyrir árslok 2016.
Læknar án landamæra hafa nú kallað eftir því að sjálfstæð rannsókn á loftárásinni fari fram. Í tilkynningu frá samtökunum kom m.a. fram að samkvæmt yfirlýsingum afganskra stjórnvalda hafi viljandi verið skotið að sjúkrahúsinu. Samtökin hafa kallað árásina stríðsglæp.
Samkvæmt tilkynningu frá Hvíta húsinu verður málið rannsakað af dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna.
Forseti Lækna án landamæra, Joanne Liu segir að starfsmenn spítalans hafi látið yfirmenn afgönsku og alþjóðlegu hersveitanna vita af loftárásinni strax sem stóð þrátt fyrir það yfir í að minnsta kosti 30 mínútur.
„Sjúkrahúsið er vel þekkt og staðsetning þess á GPS-tækjum hefur verið sýnd yfirmönnum alþjóðlegu og afgönsku hersveitanna reglulega. Síðast 29. september,“ sagði Liu. „Það er ekki hægt að líta á þessa árás sem mistök eða óhjákvæmilega afleiðingu stríðs.“
Fyrri fréttir mbl.is: