Lestarhetja stungin margsinnis

Spencer Stone hefur verið heiðraður fyrir afrekið og hylltur sem …
Spencer Stone hefur verið heiðraður fyrir afrekið og hylltur sem hetja. Hann liggur nú á sjúkrahúsi eftir hnífstunguárás. AFP

Spencer Stone, sem tók þátt í að yfirbuga vopnaðan mann í franskri lest í sumar, varð fyrir hnífstungu í Sacramento í Kaliforníu. Stone var hylltur sem hetja eftir atvikið, en Frakklandsforseti sæmdi hann orðu heiðursfylkingarinnar fyrir afrekið.

Fram kemur á vef BBC, að hann hafi verið fluttur á sjúkrahús og að liðan hans sé stöðug. 

Bandaríska fréttastöðin CBS greindi fyrst frá málinu, en þar kom fram að Stone hefði verið stunginn margsinnis á götuhorni í borginni í morgun að staðartíma. 

Stone, sem er 25 ára gamall, er einn af þremur Bandaríkjamönnum sem komu í veg fyrir hryðjuverkaárás um borð í franskri lest í ágúst. Þeir voru hylltir sem hetjur eftir að þeir yfirbuguðu mann sem var vopnaður hríðskotariffli, skammbyssu og dúkahníf. 

Stone, Alek Skarlatos og Anthony Sadler voru heiðraðir af Frakklandsforseta, sem fyrr segir. Þeir voru einnig verðlaunaðir fyrir hetjudáðina við komuna til Bandaríkjanna, en þeir hittu m.a. Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert