Upptökur úr eftirlitsmyndavél verslunar þar sem stjúpbróðir Becky Watts verslaði daginn eftir að hún var myrt voru birtar í dómssal í dag. Á upptökunum má sjá stjúpbróðurinn, Nathan Matthews, koma inn í B&Q verslun 20. febrúar, daginn eftir að hin 16 ára gamla Becky lést.
Á upptökunni má sjá Matthews skoða ákveðna hluti og er talið að hann hafi keypt hjólsög, hanska, andlitsgrímu og hlífðargleraugu.
Starfsmaður verslunarinnar, Kelly Lee, bar vitni í dag en hún afgreiddi Matthews. Hún sagði að Matthews hafi sérstaklega spurt um verðið á söginni. Þegar Lee tjáði honum verðið virtist hann ánægður og sagðist þurfa hana í dag.
Matthews er 28 ára gamall. Hann er ákærður ásamt Shauna Hoare, 21 árs kærustu sinni, fyrir að hafa myrt Becky á heimili hennar í Bristol. Saksóknarar halda því fram að árásin á Becky hafi verið kynferðislegs eðlis en Becky var rænt áður en hún var myrt.
Lík stúlkunnar á síðan að hafa verið sett í skott bifreiðar í eigu parsins og geymt þar í nokkrar klukkustundir á meðan bifreiðin stóð fyrir utan heimili Becky.
Um kvöldið keyrði parið með líkið að heimili þeirra.
Matthews hefur játað að hafa drepið Becky en neitar að um morð og mannrán hafi verið að ræða. Hann hefur þó játað að hindra framvísi réttvísinnar, hindra greftrun líks og vörslu ólöglegs vopns.
Matthews heldur því fram að Hoare sé saklaus og hafi ekki tengst morðinu. Hann segist hafa sett líkið af Becky í skott bifreiðarinnar einn án vitneskju Hoare. Hann segist hafa keyrt heim til sín með líkið í skottinu og þegar Hoare sofnaði náði hann í líkið og fór með það inn í húsið.
Næstu daga sundurlimaði hann lík stjúpsystur sinnar með söginni og pakkaði líkamsleifunum saman í plastpoka.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Constable Clare French lýsti því í dómssalnum í dag að Matthews hafi sagt henni að daginn sem Becky lést, hafi hann og Hoare farið heim til hennar einhvern tímann á milli klukkan 11 og hádegis. Parið hleypti sér inn með lykli sem þau voru með. Matthews sagðist hafa heyrt tónlist úr herbergi Becky og að um 30 mínútum seinna hafi verið slökkt á tónlistinni og útidyrahurðinni skellt.
Matthews hélt því fram við lögreglu á sínum tíma að hann hafi ekki séð Becky inni í húsinu áður en hann heyrði útidyrahurðinni skellt.
Kona sem býr í næsta húsi við Matthews og Hoare sagði fyrir rétti að hún hafi heyrt fjölmörg undarleg hljóð frá heimili þeirra. Sarah Webb sagðist hafa heyrt parið rífast í um hálftíma daginn áður en Becky hvarf. Næsta dag heyrði hún mikinn umgang á heimilinu, hlaupið upp og niður stiga, dynki, skraphljóð og hurðaskelli.
Réttarhöldin halda áfram á morgun.