Er sósíalisminn að sigra í háborg kapítalismans? Fyrir fjórum árum gerði Pew-rannsóknastofnunin könnun í Bandaríkjunum meðal fólks undir þrítugu og í ljós kom að 49% þeirra voru jákvæð í garð sósíalisma, aðeins 47% lýstu ánægju með kapítalismann. En hugtakið sósíalismi hefur ekki sömu merkingu fyrir alla. „Miðjan“ fræga í pólitík er ekki á sama róli vestra og í Evrópu, hún er lengra til hægri. Hins ber þó að gæta að opinber afskipti og ríkisforsjá hafa vaxið hratt síðustu áratugina í landinu, þá virðist ekki hafa skipt máli hvort repúblikanar eða demókratar hafa verið við völd.
En nú stormar Bernie Sanders, hvíthærður, 74 ára gamall „lýðræðislegur sósíalisti“ að eigin sögn og öldungadeildarþingmaður frá Vermont, fram í könnunum meðal demókrata, berjandi í borðið til að leggja áherslu á stéttabaráttu, baráttu gegn misskiptingu og kúgun. Peningarnir ráði öllu.
Fólk flykkist á fundi með honum. En sumt af því sem hann segir gæti komið honum í koll. Hann tekur ekki undir með þeim sem vilja herða mjög lög um skotvopnaeign enda margir veiðimenn í Vermont, segja gagnrýnendur Sanders. Innflytjendamál eru viðkvæmt mál hjá kjósendum sem rekja ættir sínar til Rómönsku Ameríku. Í júlí sagði Sanders að fyrirtækin vildu svo sannarlega breyta lögum um innflytjendur, liðka til. „En það sem ég held að þau hafi áhuga á er að tryggja ferli sem geri kleift að flytja inn ódýrt vinnuafl á öllum sviðum til landsins til að lækka laun í Bandaríkjunum.“
Bernie Sanders er fæddur í Brooklyn í New York, sonur fátæks innflytjanda af pólskum gyðingaættum og kaþólskrar móður. Hann er mikill aðdáandi norræna velferðarmódelsins en hvað vill hann ganga langt? Minna má á að sænskir jafnaðarmenn hafa aldrei þjóðnýtt stórfyrirtækin og sósíalistinn Sanders boðar ekki heldur þjóðnýtingu atvinnuveganna. En hann vill veita bönkunum aðhald, skipta þeim stærstu upp og skattleggja ríka fólkið meira.
Margar hugmyndir hans eru í anda gamalla eyðslutillagna vinstrimanna, að ríkið kosti kosningabaráttu, háskólanám verði ókeypis og hann vill skapa störf með opinberum fjárfestingum í innviðum. Dýrar hugmyndir í landi með vaxandi fjárlagahalla, er bent á.
Hann segir millistéttina hafa verið svikna. Sanders fær mikinn hljómgrunn þegar hann ræðst á fjármálafyrirtækin og stjórnkerfi sem ekki hefur enn séð ástæðu til að draga nokkurn fjármálafursta í Bandaríkjunum fyrir rétt vegna bankahrunsins 2008. Fjöldi repúblikana er ekki síður en Sanders hneykslaður á græðginni í Wall Street, samtryggingu stjórnmálaflokkanna, spillingu og öðrum ófögnuði. Óhæfir og brottreknir stjórnendur fái stórfé í sárabætur, segja margir.
En svipaðar áherslur heyrast nú víðar. „Frjálst framtak merkir ekki að allt sé leyfilegt,“ sagði Sajid Javid, viðskiptamálaráðherra Bretlands, nýlega á flokksþingi íhaldsmanna.
Aðalkeppinautur Sanders er, enn sem komið er, Hillary Clinton, og hún á vissulega miklu meira í kosningasjóði, yfir 100 milljónir dollara en Sanders liðlega 40. Sjónvarpsauglýsingar virka best í kosningabaráttu vestra og þær eru rándýrar. Peningarnir koma sér vel þegar hefðbundinn leðjuslagur í auglýsingum, þar sem keppinautar eru oft svertir með lævíslegum hætti og þrauthugsuðum dylgjum, byrjar fyrir alvöru á næstunni. Nýlega sendi hópur sem styður Clinton tölvupóst á fréttasíðuna Huffington Post og sagði að Sanders væri að mörgu leyti sammála Jeremy Corbyn, marxistanum sem nú er óvænt orðinn formaður Verkamannaflokksins breska. Bent var á að Corbyn hefði kallað dauða Osama bin Ladens „harmleik“.
Brandararnir hrynja ekki af Sanders í ræðustólnum. Hann hefur eingöngu áhuga á að ræða pólitík, en einlægnin virðist vera ósvikin og hann styðst ekki við minnismiða eða textavél.
„Bernie er síðasta manneskjan sem maður vildi vera strandaglópur með á eyðieyju,“ segir gamall vinur hans, Garrison Nelson stjórnmálafræðingur. „Eftir tveggja vikna fyrirlestra um heilbrigðismál myndi maður skima eftir hákarli og stinga sér í sjóinn.“ En Nelson hefur oft kosið Sanders.