Saksóknari í Ohio ríki Bandaríkjanna hefur birt tvær skýrslur þar sem fram kemur að lögreglumaður hafi ekki brotið af sér þegar hann skaut tólf ára dreng til bana í nóvember á síðasta ári. NBC segir frá þessu.
Skýrslurnar voru gerðar af sitthvorum aðilanum, önnur þeirra var gerð af fyrrum FBI lögreglumanni og hin af saksóknara í Denver. Í báðum skýrslunum var niðurstaðan sú að lögreglumaðurinn Timothy Loehmann hafi brugðist rétt við þegar hann skaut Tamir Rice. Drengurinn hélt á leikfangabyssu sem leit út eins og skammbyssa.
Bandarískur kviðdómur mun þó ákveða hvort að Loehmann verði ákærður vegna dauða drengsins eða ekki.
Saksóknarinn í Cuyahoga sýslu, Timothy J. McGinty sagðist hafa birt skýrslurnar til þess að gæta gagnsæis.
„Það næst engin ákveðin niðurstaða með þessum skýrslum,“ sagði McGinty í yfirlýsingu. „Samansöfnun sönnunargagna heldur áfram og kviðdómurinn mun meta þau öll.“
Subodh Chandra, lögfræðingur Rice fjölskyldunnar gagnrýndi skýrslurnar. „Þessir svokölluðu „sérfræðingar“ eru allir í liði lögreglunnar og hunsa þá einföldu staðreynd að lögreglumennirnir skutu Tamir strax án þess að meta stöðuna.“
Á Tamir að hafa verið skotinn eftir að hann fór ekki eftir fyrirmælum lögreglu og teygði sig í buxnastreng sinn.
Fyrrum FBI lögreglukonan Kimberly A. Crawford kemst að þeirri niðurstöðu í sinni skýrslu að Loehmann hafi þurft að bregðast fljótt við Rice. Hún segir ljóst að viðbrögð Rice hefðu getað verið ógn gegn lögreglumanninum.
Í hinni skýrslunni, frá S. Lamar Sims, saksóknara í Denver, er vitnað í myndbönd sem sýna Loehmann yfirgefa bifreið sína og hlaupa í skjól sem að mati Sims sýni að hann hafi litið svo á að hann væri í hættu.
„Lögreglumennirnir bjuggu stöðuna ekki til. Þeir þurftu að bregðast við stöðu sem gæti hafa komið almennum borgurum í hættu,“ skrifaði Sims.
Dauði Rice vakti mikla reiði og var honum mótmælt í Cleveland og öðrum borgum Bandaríkjanna. Fjölskylda drengsins hefur nú hafið lögsókn gegn Loehmann og lögreglumanninum sem var með honum.
Í desember var það formlega úrskurðað að dauði Rice hafi verið manndráp. Samkvæmt krufningarskýrslu var drengurinn m.a. skotinn í magann