Skýrsla um hvað olli því að þota Malaysian Airlines, flug MH17, brotlenti í Úkraínu sumarið 2014 verður birt í dag af hollenskum rannsakendum. Allir um borð, 298 manns, fórust. Í hollensku dagblaði í dag kemur fram að það sé niðurstaða skýrslunnar að þotan hafi verið skotin niður með BUK-flugskeyti.
Hollenskir rannsóknarmenn birtu í september í fyrra bráðabirgðaskýrslu þar sem fram kemur að malasíska farþegaþotan, sem sprakk í loft upp yfir Austur-Úkraínu, varð fyrir „mörgum hlutum sem fóru í gegnum flugvélina á miklum hraða“.
Þessi niðurstaða renndi stoðum undir fullyrðingar um að þotunni hefði verið grandað með flugskeyti sem skotið hefði verið frá jörðu. Uppreisnarmenn í Austur-Úkraínu og Rússar, sem hafa stutt þá, hafa haldið því fram að orrustuþota Úkraínuhers hafi grandað farþegaþotunni. Í skýrslunni er tekið fram að flugskeyti, sem skotið er úr þotu á aðra flugvél, valdi ekki því að „margir hlutir“ fari í gegnum skotmarkið.
Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarmannanna eru taldar benda til þess að farþegaþotan hafi orðið fyrir mörgum sprengjubrotum úr flugskeyti sem skotið hafi verið frá jörðu. Þær byggjast á gögnum úr flugritum þotunnar, upplýsingum frá flugumferðarstjórum og myndum.
Stjórnvöld í Kænugarði og á Vesturlöndum hafa sakað uppreisnarmennina um að hafa grandað þotunni með BUK-flugskeyti sem springur við skotmarkið og grandar því með mörgum sprengjubrotum. Uppreisnarmennirnir hafa neitað því og í skýrslunni sem birt verður í dag kemur ekki fram hver beri ábyrgðina, samkvæmt heimildum BBC.
Þotan, sem var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur, brotlenti á svæði í Úkraínu sem er yfirráðasvæði uppreisnarmanna þann 17. júlí 2014 þegar átökin stóðu sem hæst í landinu. 196 Hollendingar og 10 Bretar voru meðal þeirra sem voru um borð.