Vetrarhöll Schumacher seld á 340 milljónir

Bústaðurinn er engin smásmíði.
Bústaðurinn er engin smásmíði. Skjáskot af dn.no

Norskur fjallabústaður Michael Schumacher var seldur á dögunum á 22 milljónir norskra króna eða tæpar 340 milljónir íslenskra króna. Kappaksturskappinn eyddi nokkrum mánuðum á ári hverju í húsinu áður en hann lenti í slæmu skíðaslysi í frönsku Ölpunum í desember 2013. Misvísandi fréttir hafa borist af bata Schumacher en hann var í dái í níu mánuði eftir slysið og er var síðast sagður á hægum batavegi í byrjun árs en hann mun hafa dvalist á heimili sínu við Genfarvatn allt frá því hann komst til meðvitundar.

„Húsið var skjól hans frá þeim ágangi fjölmiðla sem hann mátti þola allt sitt líf,“ segir Peter Birkrem frá fasteignasölunni PRIVATmegleren við dn.no en hann kveðst mjög ánægður með söluna sem átti sér stað þremur mánuðum eftir að eignin var sett á sölu.

Húsið er 645 fermetrar á stærð og staðsett í Trysil norðan við Ósló. Þar naut hann þess meðal annars að fara á skíði með fjölskyldu sinni og spila knattspyrnu með fótboltaliði í Nybergsund.

Birkrem segir fyrirtæki sitt hafa gripið til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir að fjölmiðlar myndu nýta söluna til að fá innsýn í líf stjörnunnar fyrir slysið. Engar myndir af húsinu innanverðu voru í söluskjölunum og bakgrunnur allra þeirra sem fengu að skoða eignina var rannsakaður sérstaklega. Allir þeir sem komu inn í húsið þurftu að geyma síma og myndavélar utan þess.

Birkrem segir kaupandann vera útlending sem fáir í Noregi hafi heyrt af.

„Við vorum með sýningu á húsinu fyrir þennan aðila og fjölskyldu hans í byrjun vetrarins. Þeir fengu mikla „wow“ tilfinningu þegar þeir komu inn í bústaðinn.“

Schumacher keypti húsið um miðjan tíunda áratuginn. Það inniheldur minni bústað við nálæga skíðabrekku, heilsulind í kjallaranum og bílskúrspláss fyrir allt að því sjö bíla. Samkvæmt Birkrem hafði verið ákveðið að selja húsið fyrir slysið en þær fyriráætlanir voru settar á hakann í ársbyrjun 2014.

Michael Schumacher.
Michael Schumacher. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert