Vissu ekki að þau væru að deyja

Farþegar MH17 höfðu enga hugmynd um að þeir væru í þann mund að láta lífið. Engar líkur eru á því að fólkið í vélinni hafi fundið fyrir einhverju eða vitað hvað var að gerast.

„Jafnvel þó að nafn þeirra sem bera ábyrgð komi ekki fram í niðurstöðum rannsóknarinnar, gera niðurstöðurnar það að verkum að við getum lokað einhverjum dyrum, við höfum einhver svör,“ segir Belgi sem missti bróður sinn í árásinni.

Niðurstöður rannsóknar á voðaverkinu í Úkraínu sumarið 2014 liggja nú fyrir í skýrslu sem kynnt var í morgun. Þar segir að BUK-flugskeyti hafi grandað vélinni og það hafi hafnað í vinstri hlið stjórnklefans.

Rússneskur framleiðandi skeytisins dregur niðurstöður rannsóknarinnar í efa. Í skýrslunni segir einnig að loka hefði átt lofthelginni yfir átakasvæðinu.

Flugskeytinu var skotið frá átakasvæði í austurhluta Úkraínu með þeim afleiðingum að allir um borð létu lífið, eða 298 manns. Á blaðamannafundinum í morgun kom fram að þeir sem að rannsókninni stóðu hefðu ekki fundið nákvæmlega hvaðan BUK-skeytinu var skotið á loft.

Tekið er fram í frétt AFP-fréttaveitunnar að á korti sem fjölmiðlum hefði verið sýnt hefði aftur á móti verið greinilegt að um er að ræða svæði nálægt Donetsk í Úkraínu þar sem aðskilnaðarsinnar ráða ríkjum.

Frá blaðamannafundinum í morgun.
Frá blaðamannafundinum í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert