Óttast um líf kristinnar konu

Hér sést Salman Taseer ríkisstjóri rétta Asia Bibi gögn varðandi …
Hér sést Salman Taseer ríkisstjóri rétta Asia Bibi gögn varðandi mál hennar. AFP

Kristin kona sem er á dauðadeild í fangelsi í Pakistan hefur verið sett í einangrun í öryggisskyni. En óttast er um að á hana verði ráðist innan múra fangelsisins en hún var dæmd til dauða fyrir guðlast. 

Yfirmenn í fangelsinu og mannréttindasamtök segjast óttast um líf konunnar, Asia Bibi, en henni hefur verið ítrekað hótað og eins fari heilsa hennar versnandi. Hún hefur verið í einangrun í fangelsi í Multan síðan í síðustu viku.

Bibi, sem er fimm barna móðir, hefur setið á dauðadeild frá árinu 2010 en hún var dæmd til dauða fyrir guðlast þegar hún lenti í rifrildi við múslímska konu vegna vatnsskálar. 

Hótanir fóru að berast í garð Bibi í kjölfar þess að hæstiréttur staðfesti dauðarefsingu yfir Mumtaz Qadri lögreglumanni, sem skaut stjórnmálamanninn Salm­an Taseer, til bana en Taseer barðist fyrir því að lögum landsins yrði breytt á þann veg að ekki lægi dauðarefsing við guðlasti. 

Má Qadri hefur vakið mikla athygli en margir harðlínumúslímar fögnuðu því að hann skyldi skjóta Taseer til bana. Guðlast er mjög viðkvæmt málefni í Pakistan. Það hefur aldrei neinn verið tekinn af lífi í Pakistan fyrir guðlast en hver sá sem gerist sekur um slíkt eða er sakaður um guðlast á yfir höfði sér harða refsingu.

Í fyrra var bresk/pakistanskur fangi sem hafði verið dæmdur til dauða fyrir guðlast skotinn og særður alvarlega af fangaverði í Adiala fangelsinu í Rawalpindi. Kristin hjón voru brennt lifandi í nóvember eftir að þau voru sökuð um að hafa hent blaðsíðum úr kórarninum í ruslið. 

Yfirmaður í fangelsinu segir að Bibi gæti verið myrt af öðrum föngum eða jafnvel fangavörðum og því hafi verið ákveðið að verja hana með einangrunarvist.  

Heilsa Bibi hefur versnað undanfarið og hefur hún kastað upp blóði í um mánuð og á orðið erfitt með  gang. Hún hefur verið greind, að sögn fangavarðar, með lifrarbólgu B en það hefur ekki fengist staðfest, samkvæmt frétt AFP. 

„Líf hennar er í hættu vegna heilsubrests og ömurlegra aðstæðna í fangelsinu. Eins vegna bókstafstrúarmanna í fangelsinu,“ segir  Shamaun Alfred Gill, kristinn aðgerðarsinni og talsmaður samtaka sem berjast fyrir réttindum allra minnihlutahópa í Pakistan. Hann segir að samtökin hafi ítrekað reynt að fá hana flutta á sjúkrahús en slíkum beiðnum hafi alltaf verið hafnað.  

Bibi hefur neitað sök og samþykkti hæstiréttur að taka mál hennar upp á ný en ekki hefur verið ákveðið hvenær það verður. Ásakanir á hendur henni ná aftur til ársins 2009 er hún var beðin um að teygja sig í vatnskál í fæðingu en múslímakonur neituðu því að hún mætti snerta skálina þar sem hún væri ekki múslími. Nokkrum dögum síðar fóru konurnar til kennimanns og sökuðu Bibi um guðlast. 

Í apríl átti Frans páfi fund með eiginmanni hennar og dóttur og sagði þeim að hann myndi biðja fyrir velferð hennar. Árið 2010 fór forveri hans, Benedikt XVI, fram á að hún yrði látin laus úr fangelsi.

Bibi er haldið í þröngum og gluggalausum klefa  þar sem gríðarleg öryggisgæsla er. Fangavörður sem AFP fréttastofan ræddi við sagðist óttast um heilsu hennar og að það muni einhver eitra fyrir henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert