Ætlaði sér að drepa einhvern

Frá verslun IKEA í Västeras þar sem árásin átti sér …
Frá verslun IKEA í Västeras þar sem árásin átti sér stað. AFP

Maður á fertugsaldri sem stakk mæðgin til bana í IKEA verslun Västerås í Svíþjóð verður ákærður fyrir morð og hefjast réttarhöldin yfir honum í lok október. Geðrannsókn hefur leitt í ljós að hann er sakhæfur.

Lögregla og saksóknari voru með blaðamannafund vegna málsins í Västerås í morgun. Þar kom fram að réttarhöldin yfir Abraham Ukbagabir, hælisleitanda frá Erítreu, myndu hefjast 28. október.

Ukbagabir stakk mæðginin, 55 ára konu og 27 ára gamlan son hennar, inni í verslun IKEA 10. ágúst og reyndi síðan að taka eigið líf. Á þeim tíma var greint frá því í fjölmiðlum að Ukbagabir hafi degi áður verið synjað um hæli í Svíþjóð og gert að yfirgefa landið. Á öryggismyndavélum verslunarinnar sést hann taka tvo hnífa í eldhúsdeild IKEA og ráðast á mæðginin áður en hann stakk sjálfan sig.

Í sænskum fjölmiðlum í dag kemur fram að geðrannsókn hafi leitt í ljós að Ukbagabir glímdi ekki við geðræn vandamál þegar hann myrti fólkið og það þýðir að verði hann fundinn sekur verður hann dæmdur til vistunar í fangelsi ekki réttargæsludeild.

Á blaðamannafundinum í morgun vildi aðstoðarríkissaksóknari, Eva Morén, ekki tjá sig um rannsóknina og sagðist ekki hafa lesið skýrslu geðlæknis sjálf. Hún segir að Ukbagabir, sem játaði á sig árásirnar, hafi verið frávita vegna þess að honum hafi verið sagt að yfirgefa Svíþjóð og hafi ákveðið að drepa einhver en fórnarlömbin hafi hann valið af handahófi.

Lögmaður hans, Per-Ingvar Ekblad, segir að hann hafi rætt við skjólstæðing sinn og að hann sé á batavegi efir að hafa stungið sjálfan sig. Það sé ekkert sem geti réttlætt árásina.

23 ára gamall maður sem dvaldi á sömu flóttamannamiðstöð og Ukbagabir og var með honum í IKEA þegar árásin var framin er ekki grunaður um að eiga aðild að árásinni. Hann var handtekinn en látinn laus fljótlega og er ekki talið að hann hafi vitað af fyrirætlunum félaga síns.

Lögreglan jók viðbúnað við miðstöðvar flóttamanna í Västmanland í kjölfar morðanna þar sem óttast var að öfgasinnar myndu ráðast á flóttamenn frá Erítreu. En svo virðist vera að fjölskyldur fórnarlambanna hafi náð að róa fólk með því að taka fram að þau vildu ekki að dauði ástvina þeirra yrðu vopn í deilu um innflytjendur.

„Við mistum yndislega dóttur og móðir og elskaðan son og bróður. Þau voru á röngum stað á röngum tíma. Þessi skelfilegi atburður hefur verið notaður sem vopn í fjölmiðla og við viljum alls ekki að svo sé. Við viljum ekki að þetta verði notað í kappræðum um innflytjendur og samþættingu,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldunni.

DN.se

SvD

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert