Drap einn stærsta fíl Simbabve

Mynd úr safni - ekki er um fílinn sem drepinn …
Mynd úr safni - ekki er um fílinn sem drepinn var að ræða. AFP

Þýskur veiðimaður greiddi 60 þúsund bandaríkjadali, 7,7 milljónir króna, fyrir að skjóta einn stærsta fíl sem nokkurn tíma hefur sést í Simbabve. 

Í frétt Telegraph kemur fram að mynd af veiðimanninum fagna með bráð sína veki litla hrifningu meðal verndarsinna og þeirra sem starfa við leiðsögn í ævintýraferðum á þessum slóðum.

Tæpir þrír mánuðir eru síðan ljónið Cecil var drepið og allt varð vitlaust.

Fátt er vitað um fílinn annað en hann er 40-60 ára gamall og hafði aldrei áður sést í Gonarezhou þjóðgarðinum í Simbabve. 

Fíllinn var skotinn 8. október við Gonarezhou þjóðgarðinn og var veiðimaður sem býr á þessum slóðum í fylgd þýska veiðimannsins. 

Ekki hefur verið upplýst um nafn veiðimannsins en hann kom til Simbabve til þess að taka þátt í þriggja vikna veiðiferð. Tilgangur veiðiferðarinnar var að drepa dýr úr flokki fimm helstu dýra (Big Five) það er fíl, hlébarða, ljón, vísund og nashyrning. Dýr sem flestir þeirra sem fara í safarí-ferðir í þjóðgarða Afríku reyna að sjá. 

Samtök veiðiferða skipuleggjenda í Simbabve (Zimbabwe Association of Safaris Operators (Zaso)) segja að fíllinn sé sá stærsti sem hefur sést í Simbabve í 100 ár. Fílabein hans hafi verið svo stór að þau nánast snertu jörðina og voru 55 kg að þyngd. 

Stjórnarformaður Zaso, Emmanuel Fundira, segir í samtali við BBC að veiðimaðurinn hefði átt að hugsa sig um tvisvar áður en hann skaut.

Fyrr í vikunni fundu skógarverðir í Hwange þjóðgarðinum í Simbabve, þar sem Cecil var drepinn, hræ 26 fíla sem hafði verið eitrað fyrir.

Veiðiþjófar eru þekktir fyrir að eitra fyrir fílum til þess að stela fílabeinum þeirra.

Johnny Rodrigues, formaður dýraverndunarsamtaka í Simbabve segir að fíllinn hafi getað lifað í fimmtán ár til viðbótar. Hann segir að líta eigi eftir dýrum eins og fílnum aldna og stóra og sýna þau ferðamönnum.

Frétt Telegraph

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert