Mexíkóski eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman rétt slapp undan lögreglu fyrir nokkrum dögum, slasaður á fæti og í andliti. Ævintýralegur flótti hans úr fangelsi komst í heimsfréttirnar fyrr á árinu en nú segja yfirvöld að „hiti sé að færast í leitina“.
Guzman braust út úr Altiplano-öryggisfangelsinu í nágrenni Mexíkóborgar, í júlí. Þá hafði hann verið bak við lás og slá í sautján mánuði. Lögreglan leitar hans aðallega í norðvesturhluta landsins í kjölfar upplýsinga frá stjórnvöldum annars lands.
„Vegna þessara aðgerða og til að komast hjá handtökum, lagði hann á flótta í flýti nýlega og fengum við upplýsingar um að hann hefði slasast á fæti og andliti,“ segir í yfirlýsingu frá mexíkóskum stjórnvöldum. Ljóst er að lögreglan komst ekki að Guzman, heldur að hann hafi slasast er hún nálgaðist.
Guzman er forsprakki Sinaloa-eiturlyfjahringsins og hefur verið fangelsaður tvisvar og náð að flýja jafn oft. Þann 11. júlí í ár fór hann niður um gat í gólfi fangaklefa síns og þaðan út í gegnum göng.
Guzmán er talinn einn hættulegasti glæpamaður Mexíkó og þótt víðar væri leitað. Hann stýrir Sinaloa-eiturlyfjahringnum sem dregur nafn sitt af héraðinu þar sem hann var stofnaður. Sinaloa annast stóran hluta alls heróíninnflutnings til Bandaríkjanna en glæpahópurinn er einnig stórtækur í kókaínsölu sem og sölu á öðrum ólöglegum efnum. Guzmán er einnig þekktur fyrir að hafa skipulagt drjúgan hluta þeirra morða sem framin hafa verið í Mexíkó undanfarin ár í tengslum við baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
Bandarísk yfirvöld, sem einnig hafa aðstoðað við leitina, telja að Guzman hafi flúið til fjalla í heimahéraði sínu, Sinaloa, eftir að hann slapp úr fangelsinu. Guzman, sem er 58 ára, er talinn njóta stuðnings meðal íbúa á svæðinu og það auðveldi honum að fara huldu höfði. Bandarísk stjórnvöld vonast til þess að með samvinnu við mexíkósk yfirvöld megi fanga Guzman og framselja hann til Bandaríkjanna.
Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC segir að mexíkóskir hermenn hafi komist í námunda við Guzman í síðustu viku eftir að hafa rakið merki úr farsíma. Samkvæmt þeim upplýsingum var Guzman í felum á búgarði í Sinaloa-héraði.
NBC segir að herinn hafi gert áhlaup á búgarðinn, m.a. með þyrlum, en hafi orðið frá að hverfa vegna skothríðar frá félögum Guzmans.
Herinn hafi þá komið að búgarðinum á jörðu niðri en þá var búgarðurinn mannlaus.
Guzman var handtekinn á lúxus-setri sínu árið 2013. Hans hafði þá verið leitað í þrettán ár.
Í síðustu viku var birt enn eitt myndskeiðið af flóttanum mikla í júlí í sumar. AFP-fréttastofan segir að á því megi heyra hávær högg rétt áður en Guzman hvarf ofan í holuna í klefa sínum og út í gegnum göngin. Einnig hefur komið fram að það hafi tekið fangaverði 40 mínútur að fara inn í klefann, frá því að eiturlyfjabaróninn fór niður um gatið. Meira en tíu fangaverðir voru handteknir eftir flóttann og hafa verið ákærðir fyrir að hafa aðstoðað Guzman.
Guzman var handtekinn í fyrsta sinn árið 1993. Honum tókst hins vegar að sleppa úr fangelsi árið 2001 með því að fela sig í þvottakörfu.