Árásin veldur óhug í Svíþjóð

Árásin í Troll­hätt­an í dag hefur vakið óhug meðal sænsku þjóðarinnar en nemendur grunn- og gangfræðaskólans Kronan töldu í fyrstu að um hrekkjavöku-hrekk væri að ræða þegar þeir mættu grímuklæddum manni á göngum skólans. Árásarmaðurinn varð tveimur að bana og særði tvo alvarlega, áður en hann var skotinn af lögreglu.

Fjölmiðlar hafa í dag birt myndir nemenda af manninum, sem yfirvöld segja hafa hallast að öfgahægristefnu. Í skólanum, sem tekur við nemendum á aldrinum 6-15 ára, voru mörg börn nýkominna hælisleitenda.

Kennari fannst látinn á vettvangi en ungur karlkyns nemandi og árásarmaðurinn létust á sjúkrahúsi nokkrum klukkustundum síðar.

Að sögn rannsóknarlögreglumannsins Thord Haraldsson bankaði árásarmaðurinn á dyr tveggja kennslustofa og réðst á nemendurna sem opnuðu dyrnar. Tveir drengir, 11 og 15 ára, eru í lífshættu eftir að hafa verið stungnir og þá gekkst kennari undir aðgerð í kjölfar árásarinnar.

Kerti og blóm hafa verið lögð á skólalóð Kronan.
Kerti og blóm hafa verið lögð á skólalóð Kronan. AFP

Frá því hefur verið sagt að árásarmaðurinn hafi verið 21 árs og búið í Troll­hätt­an en lögregla hefur ekki veitt nánari upplýsingar um manninn né hvað honum gekk til. Hann hafði ekki komist í kast við lögin áður, en lögregla gerði leit á heimili hans eftir árásina.

Samkvæmt sænsku miðlunum TT og Expressen átti árásarmaðurinn YouTube-aðgang þar sem hann birti efni þar sem Hitler og Þýskaland nasismans var lofað, en íslam og innflytjendur lastaðir.

Lögregla var kölluð til kl. 10.10 að staðartíma.
Lögregla var kölluð til kl. 10.10 að staðartíma. AFP

„Hefði ekki ímyndað mér að þetta gæti gerst í skólanum mínum“

Lögreglu var fyrst gert viðvart um árásina kl. 10.10 að staðartíma.

„Þegar við sáum hann fyrst héldum við að þetta væri brandari. Hann var með grímu og í svörtum fötum og með langt sverð. Sumir nemendur vildu taka myndir með honum og prófa sverðið,“ sagði einn nemenda við SVT.

Hann sagðist hafa gert sér grein fyrir því að ekki væri um grín að ræða þegar maðurinn hóf að ráðast á fólk, og forðaði sér þá.

Annar nemandi, hinn 14 ára gamli David Issa, sagði í samtali við AFP að hann hefði setið inni á kaffistofu skólans þegar hann sá árásarmanninn nálgast.

„Við sátum á kaffistofunni og þá kom þessi náungi með grímu og sverð og stakk kennarann minn. Ég panikkaði og hljóp í burt,“ sagði Issa. „Síðan kom lögreglan. Og hann hóf að stinga aðra í kennslustofunum; barði á kennslustofurnar og stakk fólk þar inni.“

Flaggað í hálfa stöng við bæjarskrifstofurnar í Trollhattan.
Flaggað í hálfa stöng við bæjarskrifstofurnar í Trollhattan. AFP

Aster Caridad, 15 ára, sagði að annar særðu nemendanna væri vinur sinn. „Kennarinn skipaði okkur að yfirgefa ekki skólastofuna af því að það væri búið að myrða einhvern og aðrir væru særðir. Ég átti aldrei von á því né hefði ég ímyndað mér að þetta gæti gerst í skólanum mínum.“

Að sögn lögreglu voru nokkrir hnífar notaðir í árásinni.

„Læsið hurðinni“

Nemendur skólans eru um 400 talsins en fjölmiðlar hafa lýst honum sem „vandræðaskóla“. Skólinn hefur m.a. verið gagnrýndur af skólaeftirlitsyfirvöldum vegna slaks öryggis en kennara hafa kvartað yfir því að bókasafn skólans og kaffistofa hafi verið opin almenningi og sagt það skapa óöruggt umhverfi fyrir börnin.

Stefna Lofven, forsætisráðherra Svíþjóðar, heimsótti Troll­hätt­an í dag og sagðist myndu gera allt í sínu valdi til að tryggja öryggi í skólum landsins. Nemendum og foreldrum var veitt áfallahjálp á vettvangi, en sumir foreldrar hafa gagnrýnt það hvernig tekið var á málum.

„Enginn frá skólanum hringdi í mig. Ég komst að því hvað hafði gerst hjá nágranna þegar ég fór út  með ruslið. Ég fór út í bíl og kom hingað,“ sagði einn faðir í samtali við TT eftir að hafa fundið dóttur sína.

Stúlkan sagði að yfirkennarinn hefði komið inn í skólastofuna hennar og sagt börnunum að halda sig inni og læsa hurðinni. „Við vissum ekki hvað var að gerast.“

Börn og foreldrar yfirgefa svæðið eftir árásina í dag.
Börn og foreldrar yfirgefa svæðið eftir árásina í dag. AFP

Íbúar Troll­hätt­an eru um 57.000 talsins en þar var eitt sinn að finna höfuðstöðvar bílaframleiðandans Saab, sem fór fram á gjaldþrotaskipti 2012.

Árásir af þessu tagi eru nánast óþekktar í Svíþjóð, en engar slíkar hafa verið framdar síðan einn lést og sex særðust í skotárás í skóla í Kungalv árið 1961.

Forsætisráðherrann Stefan Loefven heimsótti skólann í dag.
Forsætisráðherrann Stefan Loefven heimsótti skólann í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert