Barn látið eftir árásina

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. www.norden.org

Tveir eru nú sagðir hafa látist í árás vopnaðs manns á skóla í bænum Trollhättan í Svíþjóð í morgun. Samkvæmt frétt Dagens Nyheter lést kennari í skólanum af sárum sínum á staðnum og einn nemandi á sjúkrahúsi. Tvö önnur fórnarlömb eru enn á sjúkrahúsi, annað þeirra þungt haldið.

Fjórir voru fluttir á sjúkrahús, þar á meðal árásarmaðurinn. Drengur er sagður hafa látist á skurðarborðinu og annað fórnarlamb sé nú í aðgerð til að bjarga lífi þess. Þriðja fórnarlambið er sagt í stöðugu ástandi en á gjörgæslu.

Vitni segja að maðurinn hafi verið svartklæddur, með Stjörnustríðsgrímu fyrir andlitinu og vopnaður sverði og hnífum. Lögreglan skaut árásarmanninn og var hann fluttur á sjúkrahús. Hann er sagður í aðgerð og tvísýnt hvort að hann lifi af.

„Við erum enn að annast fólk á staðnum, þetta er einn hræðilegasti atburður sem hefur átt sér stað í Svíþjóð,“ hefur blaðið eftir Thomas Fuxborg, talsmanni lögreglunnar.

Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan skólann og er það í áfalli, að sögn blaðamanns DN sem er á staðnum. Þá sé enn mikill fjöldi lögreglu- og sjúkrabíla þar enn.

Tilkynningin um árásina barst lögreglu kl. 10:10 að staðartíma í morgun og voru það kennarar við skólann sem gerðu henni viðvart. Ríkti ringulreið í skólanum til að byrja með en fjöldamörg börn og foreldrar voru þá á staðnum.

Lögreglan hefur boðað til blaðamannafundar vegna árásarinnar kl. 14 að íslenskum tíma.

Frétt Dagens Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert