Einn er látinn af þeim sex sem grímuklæddur maður vopnaður sverði og hnífum réðst á í grunnskóla í sænskum bæ í morgun. Lögregla skaut árásarmanninn og var hann fluttur alvarlega særður á sjúkrahús. Enn er óljóst hvort maðurinn særði fimm eða sex en í fyrstu var talað um fimm, þar af fjögur börn en nú er talað um sex. Hins vegar herma einhverjir fjölmiðlar að inni í þeirri tölu sé árásarmaðurinn. Í fyrstu var talið að hann hafi verið skotinn til bana en nú liggur fyrir að hann var fluttur alvarlega særður á sjúkrahús.
Í frétt DN kemur fram að tvö ungmenni, 11 ára og 15 ára, séu með alvarlega áverka og séu bæði í aðgerð á NÄL sjúkrahúsinu í Trollhättan.
Á vef sjúkrahússins kemur fram að fjórir séu alvarlega sárir á sjúkrahúsinu eftir árásina og að þeir séu allir í aðgerð. Einn sé kennari og tveir nemendur, 11 og 15 ára. Sá fjórði er meintur árásarmaður. Kennari hafi látist af sárum sínum á staðnum.
Árásarmaðurinn er á þrítugsaldri og var með nokkur vopn á sér þegar hann fór inn í nokkrar stofur í skólanum. Lögregla hefur ekki upplýst um hvernig grímu hann var með fyrir andlitinu. Ekki er vitað hvort hann er með einhver tengsl við skólann.
Að sögn lögreglu er þetta eitt alvarlegasta málið sem komið hefur upp í Svíþjóð af þessu tagi en lögregla ræðir nú við foreldra og börn við skólann. Svo virðist sem mörg barnanna hafi náð að fela sig og læsa sig inni í skólastofum og það hafi tekið tíma að fá þau til þess að opna fyrir lögreglu.
Þegar lögreglan kom á staðinn rúmlega tíu í morgun fann hún látinn mann við inngang skólans og skömmu síðar fann lögregla tvö særð ungmenni.
Samkvæmt frétt TT ríkir mikil ringulreið í og við grunnskólann í Trollhättan en um 400 nemendur á aldrinum 6-15 ára eru í skólanum.
Stefan Gustafsson varðstjóri í lögreglunni segir að ekki sé vitað hvers vegna maðurinn réðst inn í skólann í morgun. Áfallahjálparteymi á vegum bæjarins er komið í skólann en samkvæmt fréttum sænskra fjölmiðla eru grátandi börn og ungmenni allt í kringum skólann. Fjölmennt lið lögreglu og sjúkraliða er einnig á staðnum. Trollhättan er í 75 km fjarlægð frá Gautaborg en nokkrir tugi þúsunda búa í bænum.
Það var snemma í morgun sem maðurinn kom inn í Kronan-skólann vopnaður sverði eða stórum hníf. Haft var samband við lögreglu um tíu leytið að sænskum tíma, um átta að íslenskum tíma.