Stjúpbróðir Becky Watts viðurkenndi fyrir lögreglu að hann hefði kyrkt hana í misheppnaðri tilraun til þess að ræna henni. Tilgangur mannránsins var að „hræða hana og kenna henni lexíu“.
Nathan Matthews, er sakaður um að hafa myrt hina 16 ára gömlu Watts 19. febrúar í slagtogi við kærustu sína Shauna Hoare. Hann viðurkenndi við yfirheyrslur 2. mars að hafa valdið dauða stúlkunnar. Hann neitar þó að um morð hafi verið að ræða.
Ákæruvaldið heldur því þó fram að Matthews og Hoare hafi sundurlimað líkið og falið líkamsleifarnar í skúr í nágrenninu.
Aðalmeðferð stendur nú yfir í málinu. Í réttarsalnum í gær var lesin upp skrifleg játning Matthews þar sem hann viðurkenndi að hafa drepið stjúpsystur sína. „Þarf ég að hlusta eða má ég halda fyrir eyrun?“ heyrðist Matthews spyrja áður en lesturinn hófst.
Í yfirlýsingunni segist Matthews hafa keyrt að heimili Watts 19. febrúar, með stóran poka, stuðbyssu, handjárn, límband og grímu. „Mér datt í hug að hræða Rebecca með því að ræna henni,“ skrifaði Matthews.
„Ég vildi ræna henni til þess að hræða hana og kenna henni lexíu. Mér fannst hún vera sjálfselsk og hegðun Rebecca gagnvart móður minni ógnaði heilsu hennar.“
Að sögn Matthews beið hann eftir því að Hoare yfirgaf heimilið. Þá setti hann á sig grímu og gekk inn í svefnherbergi Watts þar sem hann reyndi að yfirbuga hana. „Eftir stutt átök datt gríman af mér og Rebecca sá framan í mig. Þá greip um mig skelfing og ég kyrkti hana á meðan hún var hálf ofan í pokanum,“ lýsti hann.
„Ég safnaði saman hlutunum sem ég notaði, setti þá og Rebecca í pokann og lokaði honum. Ég tók líka símann hennar, spjaldtölvu og fartölvu, ásamt skóm, einhverjum fötum og sængurveri og setti í annan poka.“
Matthews segist síðan hafa sett allt í skottið á bílnum sínum og keyrt að heimili sínu. Næstu daga sundurlimaði hann líkið áður en hann faldi það í skúrnum við Barton Hill.
Að sögn Matthews vissi Hoare ekkert um glæp hans. Hann sagði lögreglu að hann hafi fengið hugmyndina af mannráninu til þess að láta Becky „meta líf sitt betur, og læra að meta annað fólk.“
Hann segist ekki hafa viljað meiða stjúpsystur sína, heldur aðeins hræða hana. Hann hafði séð fyrir sér að koma henni ofan í pokann og skilja hana eftir í skóglendi. Ætlaði hann að segja „Þú þarft að koma betur fram við fólk og ekki vera tík,“ og ganga í burtu.
Að mati ákæruvaldsins í málinu er það „fáránlegt kenning“ að Hoare hafi ekkert vitað um drápið á Watts. Hún neitar öllum ásökunum þess efnis að hún hafi skipulagt morðið ásamt Matthews.
Aðrir ákærðir í málinu eru Karl Demetrius, Jaydene Parsons, Donovan Demetrius og James Ireland. Demetrius og Parsons hafa viðurkennt að hafa hjálpað Matthews á meðan Demetrius og Ireland neita því.
Fyrri fréttir mbl.is: