Særði fimm í grunnskóla í Svíþjóð

AFP

Grímuklæddur maður vopnaður sverði særði fimm, þar af fjögur börn í grunnskóla í Trollhättan í suðvesturhluta Svíþjóðar í morgun. Lögregla skaut manninn og í fyrstu var talið að hann væri látinn en nýjustu fréttir herma að hann hafi verið fluttur alvarlega særður á sjúkrahús.

Að sögn lögreglu eru nokkrir særðir eftir árásina og staðfestir Stefan Gustafsson, varðstjóri í lögreglunni, að árásarmaðurinn hafi verið fluttur á sjúkrahús. Lögregla biðst afsökunar á því að hafa sagt manninn látinn en í fyrstu var talið að hann hefði látist af völdum skotsára.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvers vegna maðurinn réðst inn í skólann en um 400 börn á aldrinum sex til fimmtán ára voru í skólanum þegar maðurinn réðst til atlögu.

Samkvæmt frétt DN var árásarmaðurinn vopnaður sverði og hnífum þegar hann kom í skólann í morgun. Enn eru fregnir af árásinu óljósar, að sögn sænskra fjölmiðla sem fylgjast grannt með.

Búið er að virkja áfallahjálparteymi á vegum bæjarins en Trollhättan er iðnaðarbær í um 75 km fjarlægð frá Gautaborg. Bærinn er einna þekktastur fyrir að þar voru Saab bílaverksmiðjurnar til húsa. Hluti áfallahjálparteymisins er þegar komið til starfa í skólanum þar sem rætt er við börn í skólanum og þeim veitt sálræn aðstoð.

Frétt Svd

Frétt DN

Sænska lögreglan
Sænska lögreglan AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert