„Svartur dagur fyrir Svíþjóð“

Nemandi og foreldri yfirgefa grunnskólann í Trollhättan í morgun.
Nemandi og foreldri yfirgefa grunnskólann í Trollhättan í morgun. AFP

Forsætisráðherra Svíþjóðar er á leið til Trollhättan þar sem mannskæð árás var gerð í grunnskóla í morgun. Hann kallar daginn svartan dag fyrir Svíþjóð og að fórnarlömb árásarinnar fái allan þann stuðning sem þau þurfi á að halda. Árásarmaðurinn er nú sagður látinn af sárum sínum.

Nemandi og kennari við grunnskólann liggja í valnum eftir að vopnaður maður hóf árás þar í morgun. Annað fórnarlamb er í lífshættu á sjúkrahúsi og það þriðja á gjörgæsludeild. Greint var frá því nú fyrir stundu að árásarmaðurinn, sem er rúmlega tvítugur, hafi látist af sárum sínum á sjúkrahúsi. Lögreglan skaut hann á vettvangi árásarinnar.

„Við höfum samúð með þeim og við verðum að tryggja að þau fái allan þann stuðning sem þau þurfa. Ég hugsa til fórnarlambanna, fjölskyldna þeirra, nemendanna, starfsfólks og alls samfélagsins sem árásin hefur áhrif á“ sagði Löfven um fórnarlömbin og aðstandendur þeirra í skriflegri yfirlýsingu sem birtist á vef ríkisstjórnarinnar.

Gustav Fridolin, menntamálaráðherra Svíþjóðar, vottaði fórnarlömbunum dýpstu samúð sína. Árásin hafi ekki beinst gegn einum grunnskóla heldur Svíþjóð allri.

„Við ættum að geta veitt börnunum okkar öruggt umhverfi í skólanum,“ segir Fridolin.

Frétt Dagens Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert