Sagði sig úr flokknum í kjölfar ummæla

AFP

Bæjarfulltrúi norska Framfaraflokksins hefur sagt sig úr flokknum eftir að hafa verið harkalega gagnrýndur af flokksforystunni fyrir ummæli um að hann skildi manninn sem myrti tvo í grunnskóla í Svíþjóð á fimmtudag.

Claus Forberg, sem er bæjarfulltrúi í Kragerø skrifaði á Facebook á fimmtudagskvöldi að hann nánast skildi hvers vegna Anton Lundin-Pettersson, 21 árs, hefði farið inn í grunnskóla í Trollhättan vopnaður sverði. Hann segist hafa kallað Lundin-Pettersson fífl fyrir að hafa haft grímu fyrir andlitinu.

Rúmlega tvítugur kennaranemi og 15 ára nemandi létust í árásinni og þrír særðust áður en lögregla skaut árásarmanninn til bana.

Torleif Flies Vikre, leiðtogi Framfaraflokksins í Kragerø gagnrýnir ummæli Forberg harðlega í viðtali við norska ríkisútvarpið og nú hefur Forberg ákveðið að segja sig úr flokknum. Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, gagnrýndi einnig ummælin og segir það óásættanlegt að stjórnmálamaður láti slíkt út úr sér.

Lundin-Pettersson sem eyddi öllum sínum tíma í tölvuleikjum og sást aldrei klæddur í annað en svört föt eða fatnað í felulitum, valdi fórnarlömb sín eftir húðlit þeirra. Hann var mjög andsnúinn múslímum og aðhylltist öfgafulla þjóðernisstefnu líkt og norski fjöldamorðinginn Anders Breivik.

Foberg lét ekki nægja ummæli sín um að skilja morðingjann heldur segir að stefna stjórnvalda í Noregi og Svíþjóð, þar sem fólki frá múslímalöndum sé veitt hæli, neyði fólk til þess að grípa til aðgerða.

Anton Lundin-Pettersson,
Anton Lundin-Pettersson, AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert