Nathan Matthews viðurkenndi að hafa valdið dauða stjúpsystur sinnar því honum fannst fjölskylda hennar „eiga skilið að vita sannleikann, svo þau gætu haldið jarðarför og sagt bless.“ Þetta kom fram við réttarhöld yfir Matthews í dag en hann er sakaður um að hafa myrt stjúpsystur sína, Becky Watts fyrr á þessu ári.
Lögmaður Shauna Hoare, spurði Matthews hvort hann hefði haft „kynferðislegan áhuga“ á Watts en Matthews neitaði því. Hoare er kærasta Matthews sem er einnig sökuð um að hafa myrt Watts sem var aðeins 16 ára gömul.
Watts hvarf af heimili sínu í Bristol í Bretlandi í febrúar og sundurlimaðir líkamshlutar hennar fundust í pokum og ferðatöskum í skúr nálægt heimili hennar ellefu dögum síðar.
Matthews neitar að hafa myrt Watts en segist hafa valdið dauða hennar. Hafði hann ætlað að ræna stjúpsystur sinni „til að kenna henni lexíu“ en endaði á því að kyrkja hana. Hann setti á sig grímu og ætlaði að ræna Watts og hræða hana því honum fannst hún koma illa fram við mömmu Matthews.
Þegar gríman datt af Matthews í hamaganginum þekkti Watts hann og kyrkti hann þá stjúpsystur sína. Var ætlun hans að láta líða yfir hana en hún lést.
Við réttarhöldin í dag spurði verjandi Matthews hann um klámnotkun hans og kynferðislegar fantasíur. Matthews sagðist skoða klám í hverri viku en ekki á hverjum degi. Við rannsókn málsins kom í ljós að á tölvu Matthews voru merktar 38 heimasíður sem tengdust klámi. Af þeim sýndu sautján þeirra klám með unglingum. Matthews sagði það rétt og sagðist einnig kannast við að hafa rætt við Hoare á samfélagsmiðlum um að ræna skólastúlkum. Hann sagði þó við réttarhöldin að hann hefði aðeins verið að stríða kærustu sinni.
Hann neitaði því að Hoare hafi deilt áhuga hans á klámi.
Fyrri fréttir mbl.is: