Breta grunar sprengju

Egypskir hermenn gæta farangurs vélarinnar sem fórst.
Egypskir hermenn gæta farangurs vélarinnar sem fórst. AFP

Breskir sérfræðingar telja að einhver sem hafði aðgang að farangursrými farþegaþotunnar sem fórst á Sínaískaga hafi komið sprengju fyrir rétt áður en vélin hóf sig til lofts. Samkvæmt BBC hefur ekki verið útilokað að tæknilegur galli hafi valdið því að vélin fórst, en það þykir ólíklegt.

Bardagamenn á Sínaískaga, tengdir Ríki íslam, segjast hafa grandað vélinni, en hryðjuverkasamtökin hafa lýst yfir stríði gegn bæði Rússum og Bandaríkjamönnum vegna loftárása þeirra í Sýrlandi.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í samtali við útvarp CBS í gær að hann teldi mögulegt að sprengja hefði grandað vélinni. Ráðamenn í Rússlandi og Egyptalandi segja hins vegar of snemmt að draga ályktanir.

Stúlka grætur í útför Ninu Lushchenko, 60 ára, sem lést …
Stúlka grætur í útför Ninu Lushchenko, 60 ára, sem lést þegar rússneska farþegaþotan fórst. AFP

Stjórnvöld í Bretlandi hafa fellt niður allt flug til Sharm el-Sheikh á þeim grundvelli að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða. Airbus-vélin sem fórst á laugardag, með 224 innanborðs, var á leið frá Sham el-Sheikh til Pétursborgar.

Til stendur að flytja þá Breta sem enn eru í Sharm el-Sheikh heim, en þeir munu aðeins fá að hafa með sér handfarangur. Stjórnvöld í Frakklandi og Belgíu hafa ráðlagt borgurum að forðast ferðalög þangað og Holland hefur bent fólki á að ferðast ekki um flugvöllinn á svæðinu.

Þýska flugfélagið Lufthansa hefur ákveðið að fella niður flug dótturfélaganna Edelweiss og Eurowings til Sharm el-Sheikh en enn er hægt að ferðast þangað með rússneskum flugfélögum.

„Kenningar um hvað gerðist og ástæður slyssins verða aðeins gefnar út af hinni opinberu rannsókn,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður Vladimir Pútín, en yfirvöld í Egyptalandi, sem treysta mjög á ferðamannaiðnaðinn, sögðu að ákvörðun Breta um að fell niður flug ætti ekki rétt á sér.

BBC sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert