Fjölmargar flugferðir á leið til Egyptalands, til þess að sækja breska strandarglópa á ferðamannastaðinn Sharm el-Sheikh, hafa snúið við. Samkvæmt frétt Sky News voru það flugvélar á vegum Thomas Cook, EasyJet, Monarch og Thomson sem sneru við á miðri leið.
Talið er að sumar þeirra séu nú á leið til Kýpur.
Á miðvikudaginn tilkynntu bresk stjórnvöld að öllum flugferðum frá Sharm el-Sheikh til Bretlands yrði frestað vegna öryggisástæðna en stjórnvöld telja möguleika á því að rússnesk farþegaþota, sem hrapaði aðeins 23 mínútum eftir flugtak á Sharm el-Sheikh hafi verið sprengd upp af hryðjuverkamönnum. Í kjölfarið urðu 20 þúsund Bretar strandaglópar í Egyptalandi.
Bresk stjórnvöld höfðu skipulagt 29 flugferðir fyrir Breta í dag en Egyptar hafa nú neitað að þjónusta margar þeirra. Pirraðir og þreyttir ferðalangar voru komnir á flugvöllinn í Sharm el-Sheikh þegar að flugmálaráðherra Egyptalands, Hossam Kamal, sagði að aðeins myndu átta flugferðir fara til Bretlands í dag.
Kamal kenndi banni Breta við farangri um en í gær var greint frá því að fólkið fengi aðeins að taka með sér handfarangur en að öðrum farangri fólksins yrði komið til þeirra síðar. Sagði Kamal að flugvöllurinn myndi ekki höndla fleiri töskur.
Talsmaður stjórnvalda sagði það a koma fólkinu heim „gífurlega flókna aðgerð“ og unnið verði áfram með egypskum stjórnvöldum og flugfélögunum.
Ferðaskrifstofan Thomas Cook sagði frá því í dag að aðeins fjórar flugferðir hafi fengið lendingaleyfi í Sharm el-Sheik. Ferðaskrifstofan Monarch hafði sömu sögu að segja en þeir fengu lendingaleyfi fyrir fjórar af fimm flugferðum. Að sögn EasyJet var átta flugferðum frestað en fyrirtækið gerir ráð fyrir því að ferja 339 farþega heim í tveimur flugferðum.
Aðeins tvær flugferðir ferðaskrifstofunnar Thomson fengu leyfi en allar ferðir British Airways.