25 manns enn saknað

Björgunarsveitarmenn í suðausturhluta Brasilíu halda áfram að leita að 25 manns sem óttast er að hafi látist þegar tvær stíflur sem að halda úrgangi frá járn- og málmnámu brustu og flæddu yfir nærliggjandi svæði.

Rauð leðja lagðist yfir þorpið Bento Rodrigues þegar stíflurnar gáfu sig síðastliðinn fimmtudag.

Yfirvöld í Minas Gerais hafa staðfest eitt dauðsfall. Margir íbúar náðu að bjarga sér með því að hlaupa þangað sem jarðvegurinn er hærri.

Enn er leitað að þrettán námustarfsmönnum og tólf íbúum en þar af eru þrjú börn týnd.

„Þegar ég fór út var fólk strax farið að hlaupa upp í hlíðarnar vegna þess að stíflan hafði gefið sig,“ segir Joaquim Dutra, íbúi á svæðinu í viðtali við BBC. „Ég læsti húsinu mínu og hljóp af stað.“

Um 500 manns búa í Bento Rodrigue sem liggur um sjö kílómetra sunnan frá stíflunni. Bento Rodrigue er hluti af Mariana sem er gamall nýlendubær og er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Duarte Junior, borgarstjóri Mariana, segir að um 500 manns taki þátt í björgunaraðgerðum. „Leitin heldur áfram og við gerum allt sem við getum. Leðjan er enn á hreyfingu en það versta er yfirstaðið.“

Slökkviliðsmenn eru nú byrjaðir að geta gengið á leðjunni þar sem hún er hörðnuð.

Þyrlur hafa sveimað um svæðið og flutt fólk í öruggt skjól en leðjan fer um og eyðileggur heimili og bíla.

Vatnið úr stíflunni og leðjan hefur nú borist inn í bæi sem eru um 70 kílómetra í burtu. Fólk óttast að járnið í leðjunni geti verið heilsuspillandi.

Enn er ekki ljóst hvað olli því að stíflan gaf sig.

Frétt mbl.is - 17 látnir eftir að stíflur brustu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert