Bresk farþegaþota á leið til egypska ferðamannastaðarins Sharm el-Sheikh varð næstum því fyrir flugskeyti í ágúst. Breskir miðlar segja frá þessu í dag en vika er síðan rússnesk farþegaþota á leið frá sama stað hrapaði á Síníaskaga.
Breska þotan var á vegum flugfélagsins Thomson Airways og voru 189 um borð þann 23. ágúst þegar flugstjórinn sá flugskeyti á ferðinni nálægt þotunni stuttu fyrir lendingu. Samkvæmt frétt CNN var flugskeytið í um 300 metra fjarlægð. Flugstjórinn náði að lenda vélinni og voru farþegarnir ekki látnir vita.
Talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar staðfesti fregnirnar í dag. „Við rannsökuðum atvikið á sínum tíma og komumst að þeirri niðurstöðu að þetta var ekki skipulögð árás heldur líklega tengdist þetta æfingum egypskra hersveita á svæðinu.“
Í tilkynningu frá Thomson Airways kom fram að fyrirtækið hafi vitað af atvikinu en niðurstaða rannsóknar á málinu benti til að engin hætta væri á ferðum og það væri öruggt að fljúga áfram til Sharm el-Sheikh.
Bæði bandarísk og bresk yfirvöld telja það líklegt að sprengja hafi grandað vélinni síðasta laugardag. Um borð voru 244 manns og létu þau öll lífið. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á verknaðinum en þær staðhæfingar voru dregnar í efa fyrst um sinn. Nú er þó talið líklegra en ekki að sprengja hafi verið notuð.