Rannsakendur segjast vera 90% vissir um að hljóð sem heyrist á upptöku flugrita rússnesku farþegaþotunnar sem hrapaði í Egyptalandi um síðustu helgi, sé sprenging.
Meðlimur rannsóknarteymis flugslyssins í Egyptalandi sagði í samtali við Reuters að allt bendi til þess að um sprengju sé að ræða á upptökunni. Í gær sögðu egypskir rannsakendur að „sérstök greining“ á hljóðinu væri í gangi. Sky News segir frá þessu.
Bresk og bandarísk yfirvöld hafa bæði lýst því yfir að líklegt sé að sprengja hafi grandað vélinni en Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð brotlendingunni.
Öryggismál á flugvellinum í Sharm el-Sheikh, þaðan sem farþegaþotan var að koma þegar hún hrapaði, hafa nú verið í umræðunni og hafa lönd eins og Bretland og Rússland takmarkað flugferðir frá borginni sem er vinsæll ferðamannastaður við Rauða hafið.
Sjö embættismenn sögðu í samtali við AP að flugvöllurinn hafi lengi verið talinn óöruggur, m.a. vegna lélegs búnaðs við farangursleit og þar sem flugvélamatur og eldsneyti kemur inn á flugvöllinn. Einnig er þekkt að lögreglumenn á flugvellinum taki við mútugreiðslum.
Að sögn embættismannanna höfðu lögreglumenn látið múta sér með allt niður í tíu evrum til þess að leyfa fólki að sleppa við öryggisleit.
Maður sem starfaði fyrir ferðamannaráðuneyti Egyptalands, Magdy Salim, sagði í samtali við fjölmiðla að verðir á flugvöllum hleypi vinum og samstarfsfélögum reglulega við öryggisleit og leituðu sjaldan á fólki sem „leit út fyrir að vera ríkt eða kom á flugvöllinn í fínum bifreiðum.“
Talsmaður flugmálaráðuneytis Egyptalands vísaði þessum ásökunum á bug og sagði Sharm el-Sheikh einn öruggasta flugvöll veraldar. Annar benti á að breskur rannsóknarhópur hefði skoðað flugvöllinn fyrir 10 mánuðum síðan án athugasemda.
Utanríkisráðherra Bretlands, Philip Hammond, sagði að atvikið gæti breytt því hvernig öryggi er háttað á flugvöllum í framtíðinni. „Ef að þetta reynist vera sprengja sem var komið fyrir af Ríki íslams eða einhverjum undir áhrifum þeirra, þurfum við augljóslega að skoða öryggismál á flugvöllum á svæðum þar sem Ríki íslams er starfandi,“ sagði hann í samtali við BBC.